Skoðun

Ábyrgð krúttanna

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Píratar á Alþingi leggja hefðbundinn skilning í hugtakið pólitísk ábyrgð. Þeir hafa ítrekað lýst því yfir að hinir og þessir ráðherrar ættu að axla pólitíska ábyrgð með því að segja af sér vegna mistaka sem þeir hafi að þeirra mati gert.

Þessu er öðruvísi farið með Pírataflokkinn í borgarstjórn, enda eru þeir píratar í valdastöðu. Mistökin hrannast upp við stjórn borgarinnar, bæði stór og smá. Nýjasta dæmið (ofan á umferðarteppuna, myglað skólahúsnæði og fjölda annarra vondra mála) er óskiljanleg framkoma borgarstjórnarinnar í garð atvinnurekenda í miðborginni. Hvert fyrirtækið á fætur öðru leggur upp laupana og forsvarsmennirnir benda á furðulegt verklag borgarinnar, skipulagsleysi og skeytingarleysi gagnvart þeim sem standa í fyrirtækjarekstri. Þegar Píratarnir í borgarstjórninni eru krafðir svara um þessi mál er eins og þeir hafi allir farið á námskeið hjá sama almannatengslafyrirtækinu. Þeir byrja alltaf á því að viðurkenna mistökin, síðan segjast þeir ætla að læra af þessum mistökunum, endurskoða verkferla, auka samráð og samtal og koma í veg fyrir að þetta rugl endurtaki sig.

Þetta finnst Pírötunum í borgarstjórninni nægjanlegt, loforð um bót og betrun jafngildir pólitískri ábyrgð og hingað til hafa fréttamenn (með örfáum undantekningum) látið þessar skýringar Píratanna duga, þeir eru jú svo einlægir og krúttlegir.

Það væri þægilegt fyrir ráðherrana að geta axlað alla pólitíska ábyrgð með loforðum um nýja ferla, samráð, innri íhugun, hópefli og hlustunarnámskeið. Allt fyrirgefið og áfram gakk.

Borgarpíratarnir hljóta að prísa sig sæla yfir því að Alþingispírat­arnir eru ekki í stjórnarandstöðu við þá í borgarstjórninni. Þeir væru fyrir löngu búnir að sjá í gegnum ruglið.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×