Körfubolti

Skaut íslenska landsliðið á kaf en vill ekki lengur spila með ÍR-ingum í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Kovac í leiknum á móti Íslandi.
Roberto Kovac í leiknum á móti Íslandi. Mynd/fiba.basketball
ÍR-ingar héldu að þeir hefðu dottið í lukkupottinn þegar þeir sömdu við Svisslendinginn Roberto Kovac á dögunum ekki síst þegar þeir sáu hann skjóta íslenska landsliðið á kaf í leik upp á líf eða dauða í undankeppni EM.

Nú er komið babb í bátinn því Roberto Kovac vill losna undan samningi sínum og semja frekar við króatíska félagið Cibona. Karfan.is segir frá þessu nýja útspili Svisslendingsins.

Roberto Kovac skoraði sex þrista og 29 stig á móti Íslandi þegar Svisslendingar unnu upp tuttugu stiga forskot og tryggðu sig áfram á kostnað íslensku strákanna.

Nokkrum dögum áður höfðu ÍR-ingar tilkynnt að Roberto Kovac væri búinn að semja við félagið og myndi spila með ÍR í Domino´s deildinni í vetur.

Króatískir vefmiðlar hafa greint frá því að Roberto Kovac hafi samið við Cibona í króatísku úrvalsdeildinni. Liðið leikur einnig í ABA deildinni og er talsvert sterkara lið en lið ÍR.

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, sagði í viðtali við karfan.is að Roberto væri enn leikmaður ÍR og að Cibona þyrfti að ræða við Breiðhylingana ef þeir ætluðu að semja við Kovac.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×