Innlent

„Svæsinn“ kuldakafli varir langt fram í næstu viku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þeir sem hyggja á strandferðir í Nauthólsvík næstu daga gætu þurft að klæða sig öllu betur en undanfarnar vikur. Sólin skín vissulega áfram en hitatölurnar lækka töluvert.
Þeir sem hyggja á strandferðir í Nauthólsvík næstu daga gætu þurft að klæða sig öllu betur en undanfarnar vikur. Sólin skín vissulega áfram en hitatölurnar lækka töluvert. Vísir/vilhelm
„Svæsinn“ kuldakafli er í kortunum um land allt næstu daga. Þetta kemur fram í spá Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Afar hlýtt hefur verið á landinu það sem af er sumri en Einar segir veðrið í sumar hafa verið um margt óvenjulegt, á alheimsvísu.

Einar lýsir væntanlegu kuldakasti í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni seint í gærkvöldi. Þá fór hiti niður fyrir frostmark á tveimur stöðum á hálendinu klukkan ellefu.

„JÆJA - FYRSTA FROSTIÐ MÆTT,“ skrifar Einar. „Fyrsta frostið í komandi kuldakasti með N-átt og úrkomu norðan heiða.“

Þá segir Einar að kuldakaflinn verði „nokkuð svæsinn um tíma“ og komi til með að vara langt fram í næstu viku, samkvæmt veðurspám, „og þess vegna eitthvað lengur“.

Undir þetta er tekið í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að hitatölur séu í lægri kantinum um norðanvert landið þessa dagana og fari lækkandi næstu daga ef spár ganga eftir, ekki síst til fjalla. Ferðalangar eru beðnir að hafa þetta í huga.

„Kuldanum fylgir einnig blástur og votviðri á norðanverðu hálendinu og er því viðbúið að vosbúðin geti orðið umtalsverð um helgina. Þeir sem hyggjast ferðast um norðanvert hálendið og á fjöllum norðanlands ættu því að fylgjast vel með veðurspám og búa sig eftir aðstæðum.“

Óvenjulegt veður í sumar

Væntanlegt kuldakast leysir þannig mikla hlýindatíð af hólmi, sérsaklega á Suður- og Vesturlandi. Júlímánuður var sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Reykjavík, samkvæmt samantekt Veðurstofunnar á tíðarfari í júlí. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust jafnframt 194,6 sem er 23,3 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og meir en 100 stundum fleiri en í júlí í fyrra.

Einar fór yfir veðrið í sumar í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Hann sagði veðrið síðustu mánuði hafa verið um margt óvenjulegt, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, og þá sérstaklega með tilliti til hitabylgjunnar sem geisaði í Vestur-Evrópu. Þetta setti Einar í samhengi við loftslagsbreytingar og vísaði einnig til mikillar bráðnunar á Grænlandsjökli og gróðurelda sem geisað hafa á norðurhjara jarðar, m.a. í Síberíu.

„Þar fyrir utan höfum við verið að sjá það í sumar, einkenni sem byrjað hafa að koma fram á síðustu árum, […] að bylgjurnar sem stýra veðrinu eru öðruvísi. Það er vegna þess að hitamunur milli hitabeltisins og norðurheimskautsins er annar en hann var áður og þá verður útslagið á þessum bylgjum miklu meira. Það þýðir að hlýrra loft sem er ættað úr suðri og úr hitabeltinu og jöðrum hitabeltisins nær norðar en áður,“ sagði Einar.

„Það þýðir það líka að það er kalt loft úr norðri sem nær sunnar. Þannig að það er meira „norður, suður“-útslag á öllu. Áður kom þetta meira úr vestri og hélt sína leið og hlýja loftið var bara í sínum heimkynnum og kalda loftið var einhvers staðar norður frá.“

Viðtalið við Einar má hlusta á í heild í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×