Golf

Valdís Þóra tapaði fjórum höggum á fyrstu fjórum holunum og er úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Mynd/LET/Tristan Jones

Valdís Þóra Jónsdóttir náði ekki að fylgja eftir fínum fyrsta degi á Opna skoska meistaramótinu í golfi og mun því ekki ná niðurskurðinum þegar kylfingar ljúka leik í dag. Mót þetta er á Evrópumótaröðinni.

Valdís Þóra lék á pari vallarins á fyrsta hringnum í gær en kláraði annan hringinn á átta höggum yfir pari í dag.

Valdís Þóra fór snemma út í morgun og byrjaði hringinn mjög illa. Hún fékk tvo skolla og einn skramba á fyrstu fjórum holunum sem þýddi að hún var þegar búin að tapa fjórum höggum og komin strax fjórum höggum yfir pari.

Valdís náði einu höggi til baka með fugli á sjöundu holunni en fimm skollar til viðbótar á hringnum þýddu að hún endaði á 79 höggum eða átta höggum yfir pari.

Niðurskurðarlínan er eins og er við parið þannig að okkar kona er því miður mjög langt frá því að ná niðurskurðinum á mótinu.

Valdís Þóra er eins og er í 134. sæti á opna skoska mótinu. Miðað við niðurskurðarlínuna núna þá fá um það bil 80 kylfingar að spila þriðja hringinn á morgun.

Besta mót Valdísar á Evrópumótaröðinni í ár var þegar hún náði fimmta sætinu á New South Wales Open í Ástralíu í mars. Valdís Þóra varð síðan í 24. sæti á Jabra Ladies Open í Frakklandi í maí.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.