Erlent

Þóttist hafa komið fyrir sprengju til að fá flug­freyju á stefnu­mót með sér

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
getty/Alexander Hassenstein
Maður frá Serbíu játaði að bera ábyrgð á sprengjuhótun, sem var þó bara gabb, í von um að fá flugfreyju til að fara á stefnumót með sér.

Símtal mannsins, sem er 65 ára gamall, olli því að rýma þurfti flugvél Lufthansa á fimmtudag áður en hún tók á loft en hún var á leið frá Belgrad til Frankfurt.

Farþegarnir 130 og fimm manna áhöfnin þurftu að yfirgefa vélina á meðan í henni var leitað af sprengjudeild lögreglunnar og lögregluhundum.

Maðurinn, sem hefur ekki verið nafngreindur, hafði hitt tvær flugfreyjur og boðið þeim að snæða með sér kvöldmat en þær höfðu afþakkað.

Hann játaði gabbið í dómssal á laugardag og sagði að honum hafi sérstaklega líkað önnur konan og eftir að honum hafi mistekist að finna hana á hótelinu þar sem hún var hafi hann leitað til þessa neyðarúrræðis til að halda henni í landinu.

Lögreglan rakti símtalið eftir að hann hótaði „sprengjutilræðinu“ og var handtekinn daginn eftir.

Talsmaður saksóknara sagði við serbneskt fréttafólk að saksóknarar hafi farið fram á gæsluvarðhald vegna yfirvofandi ákæra fyrir að hafa valdið skelfingu og ringulreið.

Á fimmtudag sagði innanríkisráðuneyti Serbíu í tilkynningu: „Í morgun kl. 6 hringdi óþekktur einstaklingur og greindi frá sprengju um borð í flugvél á leið til Frankfurt.“

„Lögreglan er að rannsaka hvort þetta sé gabb og eru einnig að vinna í því að finna út úr því hver það er sem hringdi.“

För farþeganna um borð seinkaði um átta klukkustundir vegna hrekksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×