Síle einu marki frá því að komast í 16-liða úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vítaspyrna Franciscu Lara smellur í slá tælenska marksins.
Vítaspyrna Franciscu Lara smellur í slá tælenska marksins. vísir/getty
Síle vantaði eitt mark til að komast í 16-liða úrslit heimsmeistaramóts kvenna. Síle vann Tæland, 0-2, í lokaleik sínum í F-riðli en hefði þurft að vinna með þriggja marka mun til að komast áfram.

Ef Síle hefði skorað eitt mark í viðbót hefðu þær farið í 16-liða úrslit á kostnað Nígeríu og mætt Þýskalandi.

Francisca Lara á eflaust ekki eftir að sofa mikið í nótt en hún skaut í slá úr vítaspyrnu á 85. mínútu, í stöðunni 0-2.







Staðan var markalaus í hálfleik en á 48. mínútu skoraði Waraporn Boonsing afar slysalegt sjálfsmark og kom Síle yfir.

Þegar tíu mínútur voru til leiksloka kom Maria Urrutia síleska liðinu í 0-2 með skalla. Síle þurfti því aðeins eitt mark til að komast áfram en það kom ekki. Lokatölur 0-2, Síle í vil.

Þetta var fyrsti sigur Síle á HM frá upphafi en hann dugði skammt. Liðið endaði í 3. sæti F-riðils með þrjú stig. Tæland tapaði öllum þremur leikjunum sínum með markatölunni 1-20.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira