Körfubolti

Finnur Freyr tekur við dönsku bikarmeisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Finnur Freyr hefur verið aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins undanfarin ár.
Finnur Freyr hefur verið aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins undanfarin ár. vísir/bára
Finnur Freyr Stefánsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið Horsens.

Finnur stýrði KR á árunum 2013-18. Á þeim tíma varð KR fimm sinnum Íslandsmeistari, fjórum sinnum deildarmeistari og einu sinni bikarmeistari.

Finnur hætti hjá KR eftir tímabilið 2017-18. Í vetur þjálfaði hann yngri flokka hjá Val. Þá er hann yfirþjálfari yngri landsliða Íslands og hefur verið aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla undanfarin ár.

Horsens varð danskur bikarmeistari á síðasta tímabili og komst í úrslit um danska meistaratitilinn þar sem liðið tapaði fyrir Bakken Bears, 4-0. Horsens hefur sex sinnum orðið Danmerkurmeistari, síðast 2016.

Þess má geta að Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, lék með Horsens á árunum 1993-2002. Sigurður Þór Einarsson, fyrrverandi leikmaður Hauka og Njarðvíkur, lék einnig með Horsens um tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×