Fótbolti

Gerrard gæti mætt með Rangers á Meistaravelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gerrard og strákarnir hans gætu mætt KR, toppliði Pepsi Max-deildarinnar, í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Gerrard og strákarnir hans gætu mætt KR, toppliði Pepsi Max-deildarinnar, í forkeppni Evrópudeildarinnar. vísir/getty
Skoska stórveldið Rangers, sem Steven Gerrard stýrir, er eitt þeirra liða sem KR getur mætt í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Dregið verður í 1. umferð forkeppni Evrópu- og Meistaradeildarinnar á morgun. Leikirnir fara fram í næsta mánuði.

KR er í neðri styrkleikaflokki í drættinum í forkeppni Evrópudeildarinnar. Auk Rangers getur KR mætt Hirti Hermannssyni og félögum í danska liðinu Bröndby, Cork (Írlandi), Molde (Noregi) og Crusaders (N-Írlandi).

Annað árið í röð geta Íslandsmeistarar Vals mætt Noregsmeisturum Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Valur er neðri styrkleikaflokki og getur dregist á móti Rosenborg, BATE Borisov (Hvíta-Rússlandi), HJK Helsinki (Finnlandi), Maribor (Slóveníu), Dundalk (Írlandi) og The New Saints (Wales).

Rosenborg sló Val út í 1. umferðinni í fyrra á afar umdeildan hátt, samanlagt 3-2. Danski framherjinn Nicklas Bendtner skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Valsmenn voru afar ósáttir við dómgæsluna og Ólafur Jóhannesson, þjálfari liðsins, fékk tveggja leikja bann frá UEFA fyrir mótmæli.

Willum Þór Willumsson leikur með BATE Borisov sem sló Val út úr forkeppni Meistaradeildarinnar fyrir ellefu árum. HJK, Dundalk, Maribor og The New Saints hafa einnig öll mætt íslenskum liðum á undanförnum árum, bæði í forkeppni Meistara- og Evrópudeildarinnar.

Bikarmeistarar Stjörnunnar eru í efri styrkleikaflokki í Evrópudeildinni og ætti að fá nokkuð viðráðanlegan andstæðing. Stjarnan getur mætt Saint Patrick's (Írlandi), RoPS Rovaniemi (Finnlandi), Liepaja (Lettlandi), Barry Town (Wales)/Cliftonville (N-Írlandi), Levadia Tallin (Eistlandi) og KÍ (Færeyjum)/Tre Fiori (San Marinó).

Breiðablik er í neðri styrkleikaflokki í Evrópudeildinni og geta mætt Arnóri Ingva Traustasyni og félögum í sænska liðinu Malmö, Vaduz (Liechtenstein), Brann (Noregi), Vitebsk (Hvíta-Rússlandi) og Kilmarnock (Skotlandi).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×