Enski boltinn

Maradona segist vera rétti maðurinn fyrir Man. Utd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Maradona er með nóg af sjálfstrausti sem fyrr.
Maradona er með nóg af sjálfstrausti sem fyrr. vísir/getty
Argentínumaðurinn Diego Armando Maradona hefur boðið sig fram í að taka við Man. Utd. Hann segist vera rétti maðurinn til þess að koma liðinu aftur á toppinn.

Man. Utd endaði síðustu leiktíð skelfilega og mun fara aftur í Evrópudeildina næsta vetur. Þessi lokakafli fékk marga til að efast um að Ole Gunnar Solskjær sé rétti maðurinn til þess að leiða liðið inn í framtíðina.

Maradona er að þjálfa mexíkóska 2. deildarliðið Dorada en er greinilega til í að yfirgefa það félag ef kallið kemur frá United.

„Ef Man. Utd vantar þjálfara þá er ég rétti maðurinn fyrir félagið. Ég veit að félagið selur mikið af treyjum um allan heim en það þarf líka að vinna titla. Ég get bjargað því fyrir félagið,“ sagði Maradona í viðtali við Four Four Two.

„Man. Utd var alltaf uppáhaldsliðið mitt í enska boltanum. Margir frábærir leikmenn undir stjórn Alex Ferguson. Núna held ég samt með City og þá aðallega út af Aguero. Við spjöllum mikið og hann er í góðu liði.“

Aguero er fyrrum tengdasonur Maradona og á barn með dóttur hans. Maradona er sammála mörgum um Paul Pogba.

„Ég er hrifinn af Ander Herrera en Paul Pogba er alls ekki nógu duglegur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×