Formúla 1

Alonso ekki með í Indy 500

Bragi Þórðarson skrifar
Alonso var svekktur eftir tímatökurnar á Indianapolis brautinni
Alonso var svekktur eftir tímatökurnar á Indianapolis brautinni Getty

Fernando Alonso mun ekki taka þátt í Indy 500 kappakstrinum í Bandaríkjunum um næstu helgi eftir að Spánverjinn datt út í tímatökum.

Alonso er að reyna við þreföldu kórónu mótorsportsins, þ. e. að vinna Mónakó Formúlu 1 kappaksturinn, Le Mans þolaksturskeppnina og 500 mílna Indianapolis kappaksturinn.

Spánverjinn vann í Mónakó fyrir Renault Formúlu liðið árið 2006 og Le Mans í fyrra með Toyota. Aðeins þrettán ökuþórum hefur tekist að vinna tvær af þremur keppnunum í þreföldu kórónunni. Einungis Graham Hill hefur unnið allar þrjár keppnirnar.

Fernando reyndi fyrst við Indy 500 kappaksturinn árið 2017. Þá keppti hann með Andretti liðinu en þó var bíll hans merktur McLaren. Alonso leiddi alls 27 hringi árið 2017 en varð frá að hverfa með vélarbilun.

McLaren kom með sinn eigin bíl í ár fyrir Alonso sem virtist hafa verið kolröng ákvörðun. ,,Þetta hefur verið erfið vika fyrir liðið, okkur þykir leitt að aðdáendur okkar muni ekki sjá okkur keppa’’ sagði liðið á samfélagsmiðlum.

McLaren bíllinn virtist aldrei vera í fullkomnu jafnvægi á brautinni sem varð til þess að tvöfaldi Formúlu 1 meistarinn komst ekki uppúr tímatökum.

Aðeins þrír af þeim 36 bílum sem keppa detta út úr tímatökum, hinn 37 ára gamli Alonso var því gríðarlega svekktur með úrslitin.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.