Handbolti

Björgvin og Tandri tryggðu sig í undanúrslitin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Björgvin Páll Gústavsson fagnar eftir að hafa varið víti á HM 2019.
Björgvin Páll Gústavsson fagnar eftir að hafa varið víti á HM 2019. vísir/getty

Björgvin Páll Gústavsson, Tandri Már Konráðsson og félagar í Skjern tryggðu sér sæti í undanúrslitunum um danska meistaratitilinn í handbolta með stórsigri á Sönderjyske í Íslendingaslag. Janus Daði Smárason átti góðan leik fyrir Álaborg sem tapaði fyrir Holstebro.

Lokaumferð úrslitariðlanna tveggja í dönsku úrvalsdeildinni fór fram í kvöld, en efstu tvö liðin í hvorum riðli fara áfram í undanúrslit.

Álaborg var búið að tryggja sig áfram í undanúrslitin fyrir leikinn en Holstebro átti möguleika á að taka undanúrslitasæti af Skjern. Holstebro gerði sitt og vann 29-28 sigur á Álaborg, en þar sem Skjern vann Sönderjyske dugði það ekki til.

Janus Daði var markahæstur í liði Álaborgar, ásamt Henrik Möllgaard, með sex mörk. Hann átti þar að auki þrjár stoðsendingar. Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk og lagði upp tvö. Vignir Svavarsson komst ekki á blað fyrir Holstebro.

Skjern vann stórsigur á Sönderjyske 39-22. Tandri Már Konráðsson skoraði fjögur marka Skjern og Björgvin Páll Gústavsson varði 4 skot af 16. Arnar Birkir Hálfdánsson gerði þrjú mörk fyrir Sönderjyske.

Álaborg endar á toppi riðilsins með átta stig, líkt og Skjern og fara bæði í undanúrslit.

Í hinum riðlinum tryggði Bjerringbro-Silkeborg sér undanúrslitasæti með eins marks sigri á GOG 28-29. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði eitt mark fyrir GOG.

GOG endaði þrátt fyrir tapið á toppi riðilsins. GOG mun því mæta Skjern í undanúrslitunum og Álaborg spilar við Bjerringbro-Silkeborg.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.