Umfjöllun: ÍBV 32 - 30 Haukar | Fjögur rauð spjöld á loft er ÍBV jafnaði metin

Þór Símon Hafþórsson skrifar
vísir/ernir
ÍBV og Haukar mættust í kvöld í öðrum leik liðanna í einvíginu um að komast í úrslit Olís deildar karla. Leikurinn fór heldur betur fjörlega af stað og voru 10 mörk skoruð á fyrstu 5 mínútum leiksins þar sem liðin tvö skiptust á að skora.

 

Eyjamenn tóku hægt og rólega völdin í leiknum og náðu fjögurra marka forystu þar sem vörnin skellti í lás og Haukar fundu ekki netið í góðar 12 mínútur. Þegar þeir svo fundu markið náðu þeir sér aftur á strik og náðu að jafna eftir 22 mínútur og komast svo í kjölfarið í forystu. 

 

Í millitíðinni hafði Darri Aronsson, leikmaður Hauka, og Róbert Sigurðarsson, leikmaður ÍBV, fengið að líta bein rauð spjöld og það var alls ekki það síðasta sem við fengum að sjá af rauða litnum í leik þar sem vægast sagt bæði lið sáu rautt. 

 

Haukar tóku forystuna með sér inn í hlé en staðan eftir fyrri hálfleik var 18-19, gestunum í vil. Það kom ekki að sök fyrir Eyjamenn sem byrjuðu seinni hálfleikinn betur og endurheimtu forystuna strax í upphafi seinni hálfleiks. 

 

Dómararnir liftu tveimur fingrum á loft trekk í trekk þar sem baráttan var blóðheit og ansi svakaleg á köflum. Haukar náðu að jafna á 51. mínútu en nokkrum mínútum síðar er staðan var 28-28 fékk Haukamaðurinn Adam Haukur beint rautt spajld, það þriðja í leiknum. Leikurinn var hnífjafn undir lokin og það var ekki fyrr en að Haukar töpuðu boltanum klaufalega er innan við mínúta var eftir að leikurinn hljóp frá þeim.

 

Eyjamenn með tveggja marka forystu og innan við mínúta eftir og þá fengum við loks síðasta rauða spjald leiksins er Kári Kristján var rekinn útaf  með sína þriðju brottvísun en hitinn var mikill og allt ætlaði að sjóða upp úr og Haukar misstu að auki tvo menn af velli með tvær mínútur hvor. 

 

Kristján Örn kláraði leikinn á endanum með marki á lokasekúndunum og tveggja marka sigur Eyjamanna staðreynd. Ótrúlegum leik lokið og ÍBV mæta í Hafnarfjörðin á sunnudaginn með stöðuna í einvíginu jafnt, 1-1. 

 

Afhverju vann ÍBV?

Brottvísanir voru Haukum rándýrar. Haukar spiluðu heilar 10 mínútur einum manni færri en heilt yfir fengu Haukar 22 mínútur í brottvísanir en Eyjamenn 12. Einnig held ég að þeir hafi saknað Adam Hauk síðustu mínúturnar en hann er auðvitað þeirra besta skytta og gátu Eyjamenn varist þeim betur með hann af velli síðustu fimm mínúturnar. 

 

En þetta var hnífjafnt og mjótt var á milli nær allan leikinn. Björn Viðar Björnsson átti stórleik í marki Eyjamanna og skellti á löngum köflum hreinlega í lás. Þetta einvígi lyktar samt af blóðheitum oddaleik og ég vona innilega að sú spá muni reynast rétt. Við fáum allt fyrir peningin í þessu einvígi. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Hákon Daði var drjúgur fyrir sóknarleik Eyjamanna fyrir utan stuttan kafla þar sem fátt virtist ætla að fara inn frá honum. Adam Haukur var frábær fyrir Hauka þangað til hann fékk að líta sitt annað rauða spald í einvíginu. Einnig var ég gríðarlega hrifinn af Gabríel Martinez hjá ÍBV sem var frábær. 

 

Í raun gæti ég haldið lengi áfram en sérstaklega verður að minnast á Björn Viðar Björnsson á milli stanganna hjá ÍBV en hann lokaði og læsti markinu á löngum köflum. Einnig fannst mér Andri Sigmarsson eiga góða innkomu inn í mark Hauka í seinni hálfleik.

 

Hvað gekk illa?

34 mínútur í brottvísanir samanlagt hjá báðum liðum. Ég sem hlutlaus áhorfandi auðvitað elskaði að horfa á baráttuna og ástríðuna en ég er viss um að bæði Erlingur og Gunnar Magnússon, þjálfarar liðanna, vilji finna hinn gullna milliveg þar sem leikmenn geti sýnt sömu ástríðu án þess að fá tvær mínútur í gjöf trekk í trekk. 

 

Fjögur rauð spjöld, þrjú þeirra bein rauð spjöld, er líka kannski fullmikið af hinu góða. Aftur, ég sem sá hlutlausi fagna, en að vera í undirtölu aftur og aftur gerir hvorugu liði engan greiða.

 

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur á sunnudaginn í Hafnarfirðinum í leik númer þrjú þar sem annaðhvort liðið getur tekið yfirhöndina í einvíginu. Ég tippa samt á að þetta endi í oddaleik. Krossum fingur. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira