Körfubolti

Matthías: Getum ekki farið að guggna á þessu núna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Matthías Orri í leiknum í kvöld.
Matthías Orri í leiknum í kvöld. Vísir/Daníel
Matthías Orri Sigurðarson var eins og gefur að skilja afar svekktur með niðurstöðuna í Seljaskóla í kvöld. ÍR fékk tækifæri til að vinna Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli en tapaði fyrir KR, 80-75, í fjórða leik liðanna í úrslitarimmunni. Oddaleikurinn fer fram í DHL-höllinni á laugardag.

„Það er slæm tilfinning í mér núna. En við vorum bara ekki nógu góðir í dag og þeir almennt betri í lengri tíma,“ sagði Matthías. „Það er ekki nóg að vera góðir í tíu mínútur eins og við vorum í dag.“

Matthías segir að vörn KR-inga hafi verið erfið fyrir hans menn.

„Þeir spiluðu frábærlega í vörn. Þeir hreyfðu líka boltann mjög vel í sókn og fengu dýrmætt framlag frá strákunum á bekknum sínum. Það skiptir miklu máli að fá stigin frá Finni Atla eins og fleirum.“

„En oft á tíðum skelltu þeir í lás í vörn og við áttum því miður ekki nógu mikil svör við því. Við þurfum að finna betri leiðir til að vinna á því á laugardaginn.“

Matthías segir eðlilegt að það sé meiri ákefð í leikjunum eftir því sem líður á úrslitaeinvígið enda meira í húfi.

„Þegar nær dregur titlinum er meira undir. En við getum ekkert farið að guggna á því. Við höfum verið að spila jafna leiki í allan vetur og erum vanalega góðir í því.“

„Ég er því mjög svekktur að hafa ekki klárað leikinn út af því, sérstaklega af því að það var lítið skorað. Oftast klárum við þannig leiki. Ég hefði líka viljað klára þennan leik á heimavelli og fagna með okkar stuðningsmönnum hér.“

Matthías segir þó ljóst að hans menn ætli ekki að dvelja lengi við tapið í kvöld.

„Við höfum verið að vinna oddaleikina og við höfum verið að vinna útileikina. Við komum fullir sjálfstrausts inn í leikinn á laugardaginn og ætlum að negla á þá.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×