Viðskipti innlent

Eigandi Cardiff kaupir Icelandair Hotels

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vincent Tan á leik Cardiff í maí í fyrra.
Vincent Tan á leik Cardiff í maí í fyrra. Getty/Nathan Munkley
Samningar dótturfélags malasíska fjárfestingafélagsins Berjaya Corporation um kaup á 80% hlut í Icelandair Hotels eru á lokametrunum. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins. Stofnandi fjárfestingafélagsins er malasíski viðskiptajöfurinn Vincent Tan, eigandi breska knattspyrnufélagsins Cardiff City.

Icelandair ákvað í maí í fyrra að hefja söluferli á Icelandair Hotels og fasteignum sem tilheyra hótelrekstrinum. Mun Icelandair nú selja 80% hlut sinn í félaginu og halda eftir fimmtungshlut í því, að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins. Í byrjun apríl var greint frá því að viðræður um sölu á hótelkeðjunni væru á lokastigi en ekki var þó gefið upp við hvern Icelandair Group ætti í viðræðum við.

Icelandair Hotels reka hótelin Reykjavík Natura, Reykjavík Marina og hótel á Akureyri, Flúðum, Vík, Mývatni, Borgarnesi og í Héraði.

Í febrúar var greint frá því að dótturfélag Berjaya Corporations væri að ganga frá kaupum á fasteigninni að Geirsgötu 11 á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík. Heildarvirði þess samnings nemur tæplega 14 milljónum dala eða jafnvirði um 1.670 milljóna króna.


Tengdar fréttir

Sala Icelandair Hotels á lokastigi

Icelandair Group stefnir á að eiga áfram 20 prósent hlut í dótturfélagi þess, Icelandair Hotels, sem nú er í söluferli. Ákveðið hefur verið að ganga til lokasamningaviðræðna um sölu á hótelkeðjunni.

Tilboðum í Icelandair Hotels skilað í vikulok   

Fjárfestar sem fóru áfram í aðra umferð söluferlisins á Icelandair Hotels, dótturfélagi Icelandair Group, hafa frest fram til 1. mars næstkomandi til að skila inn skuldbindandi tilboðum í hótelkeðjuna, samkvæmt heimildum Markaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×