Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Valur 36-34 | Haukur með sýningu og Selfoss vann í framlengingu

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/bára
Selfoss vann frábæran sigur á Val eftir framlengingu í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís deildar karla. Leikurinn fór fram í Hleðsluhöllinni og lauk með sigri heimamanna 36-34.

 

Það var mögnuð stemning á Selfossi í kvöld og þétt setið í stúkunni en leikurinn fór hratt af stað og var jafnt á flestum tölum í byrjun leiks. Valsmenn tóku síðan aðeins framúr heimamönnum um miðbik hálfleiksins.

 

Á 25.mínútu urðu Valsmenn fyrir miklu áfalli þegar Orri Freyr Gíslason fékk sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald en á tímapunkti voru Valur með aðeins 4 menn inn á með markmanninum. Selfoss náði að jafna leikinn og það var jafnt í hálfleik 17-17.

 

Valur kom mikið sterkara til leiks í síðari hálfleik og komst 3 mörkum yfir áður en Selfoss náði loksins að skora mark eftir 9 mínútur í síðari hálfleiknum. Þeir jöfnuðu en þá tóku Valsmenn annan sprett og leiddu með 4 mörkum.

 

Þá var komið að Hauki Þrastarsyni en hann var magnaður í kvöld. Hann skoraði 5 af næstu 7 mörkum heimamanna og það var jafnt á tölum, 27-27. Valsmenn leiddu síðan 30-29 þegar stutt var eftir en hver annar en Haukur jafnaði leikinn þegar aðeins 10 sekúndur voru eftir! 

 

Í framlengingu kom Pawel Kiepulski í mark heimamanna aftur og hann var frábær í framlengingunni og Selfoss tók öll völd í byrjun og komust 3 mörkum yfir. En það er seigla og karakter í liði Vals og þeir minnkuðu muninn í 1 mark þegar 3 mínútur voru eftir.

 

Því miður komust þeir ekki nær og Selfoss náði að sigla sigrinum heim eftir frábæra skemmtun í Hleðsluhöllinni.

 

 

Af hverju vann Selfoss?

 

Það er svo mikill karakter í þessu liði og Haukur Þrastarson var gjörsamlega frábær. Hann dróg vagninn fyrir Selfoss og kom þeim inn í leikinn með flottu einstaklingsframtaki.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Fyrrnefndur Haukur var klárlega maður leiksins með 14 mörk úr aðeins 17 skotum. Sölvi Ólafsson var fínn í markinu með 14 varða bolta eða um 40% markvörslu.

 

Hjá Valsmönnum var Anton Rúnarsson markahæstur með 11 mörk þar af 5 úr vítum. Róbert Aron Hosters kom næstur með 6 mörk.

 

Hvað gekk illa?

 

Markvarsla Valsmanna var ekki nógu góð í kvöld en hún var verri en hjá heimamönnum sem er nokkuð óvænt. Varnarleikurinn var ekki uppá sitt besta og það hjálpaði ekki að Orri Freyr fékk rautt.

 

Hvað gerist næst?

 

Liðin mætast aftur í Origo-höllinni næstkomandi föstudag og með sigri þar kemst Selfoss í kjörstöðu! Lykilleikur fyrir Val og þeir verða helst að vinna leikinn.

 

Patti: Haukur er magnaður gæi

Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss var hæstánægður með sigur sinna manna gegn Val í kvöld. Leikurinn fór í framlengingu en heimamenn kláruðu leikinn að lokum með 2 mörkum, 36-34.

 

„Mjög sáttur með sigurinn. Þetta var frábær handbolti og örugglega meiriháttar að horfa á leikinn. Tvö frábær handboltalið og flottur varnarleikur hjá okkur í framlengingunni sem skilaði þessu.”

 

Hann var gífurlega ánægður með framlag Hauks Þrastarsonar en Haukur tók yfir leikinn í seinni hálfleik og kom heimamönnum aftur inn í leikinn.

 

„Hann er magnaður gæi og það er ótrúlegt hvað hann er ungur en hann getur ennþá náð svo langt í þessari íþrótt. Hann hefur bætt sig mikið síðan ég byrjaði að þjálfa hann en þá var hann 15 ára.”

 

Hann tók bara yfir leikinn fyrir okkur og við fórum líka í 7 á 6 í sókninni sem gerði mikið fyrir okkur. Varnarleikurinn varð betri undir lokin einnig.”

 

Patti hefur einhverjar áhyggjur af sínu liði eftir langan og erfiðan leik.

 

„Já auðvitað, þeir voru líka orðnir þreyttir alveg eins og við. Robbi var orðinn þreyttur en nú er það bara endurheimt og við þurfum að gera okkur klára í hörkuleik en við vælum ekkert yfir þessu.”

 

Varðandi þróun einvígisins sagði Patti að hann hefur enga trú á öðru en að þetta verði bara eins og í kvöld. Jafnt fram á seinustu mínútur og sekúndur í öllum leikjunum.

 

„Jú ég held það. Gulli og Snorri eru frábærir þjálfarar og koma alltaf með verðug verkefni fyrir mann. Við þurfum að halda áfram og leikmenn beggja liða eru mjög góðir. Það er bara 1-0 en ég ætla að undirbúa mig vel fyrir næsta leik á föstudaginn,” sagði Patti að lokum.

 



Snorri Steinn: Væri til í að vinna með 10 á föstudaginn

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals var skiljanlega svekktur eftir tap sinna manna gegn Selfossi í kvöld. Hann sagði að þeir þyrftu að laga margt fyrir næsta leik.

 

„Ég þarf aðeins að horfa á leikinn aftur til að meta það til fulls en þetta var bara stál í stál og mjög jafn leikur. Við skorum mikið af mörkum og þegar við skorum 30 mörk þá á það að duga okkur til sigurs en það var ekki þannig.”

 

„Við erum að spila á móti frábæru liði og það var hægt að spá því að þetta yrði alvöru leikur. Við erum fúlir núna en við þurfum að jafna okkur og menn þurfa að komast yfir þetta og vera klárir í hörkuleik aftur á föstudaginn.”

 

Snorri var ekki sáttur með brottvísanirnar þrjár sem Orri Freyr Gíslason fékk á sig á stuttum tíma í fyrri hálfleik en hann vildi ekki tjá sig meira um það.

 

Hann bætti við að hann hefði engar áhyggjur af ástandi sinna manna þrátt fyrir erfiðan og langan leik í kvöld og var síðan að lokum spurður út í það hvort einvígið myndi ekki einfaldlega þróast svona. Allir leikir jafnir og ráðast á síðustu sekúndum leiksins.

 

„Ég væri nú til í að vinna með 10 mörkum á föstudaginn en ég myndi ekki setja rosa mikinn pening á það. En þetta eru bara tvö góð og jöfn lið. Það munaði ekki nema 1 stigi á liðunum í deildinni þannig að það er ekki ólíklegt,” sagði Snorri að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira