Lífið

Erna gerir það gott hjá risa snyrti­vöru­fyrir­tæki í Dúbaí

Stefán Árni Pálsson skrifar
Erna Karólína starfar hjá risa fyrirtæki í Dúbaí.
Erna Karólína starfar hjá risa fyrirtæki í Dúbaí.
Árið 2013 útskrifaðist ég með BS gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, ég vissi alltaf að mig langaði til þess að flytja erlendis til þess að sérhæfa mig og læra Vörumerkjastjórnun og Samskipti (Brand Management & Communication) og öðlast reynslu á alþjóðarmarkaði. Ég kynnti mér nokkra háskóla og Instituto Europeo di Design á Ítalíu varð fyrir valinu vegna þess að sá skóli nálgast námið á mjög hagnýtan hátt,“ segir Erna Karolína Arnardóttir sem hefur verið búsett í Dúbaí síðastliðin fimm ár þar sem hún starfar fyrir snyrtivörufyrirtækið Huda Beauty en fyrirtækið er í dag metið á 1,2 milljarða dollara. Þar vinnur Erna sem samfélagsmiðlastjóri en fyrirtækið er samanlagt með fjörutíu og fimm milljónir fylgjenda.

„Í Mílanó var ég kynnt fyrir konu frá Katar sem veitti mér mikla innsýn í það hvernig það er að búa í Mið-Austurlöndum. Ég hafði aldrei komið til Mið-Austurlanda eða til Asíu en þegar ég komst að því að Dúbaí væri óðum að nálgast það að vera stærsti vettvangur alþjóðaviðskipta í heiminum ákvað ég að sækja um störf þar. Ég fékk vinnu sem lærlingur hjá JWT, sem er ein af stærstu auglýsingastofu heims i dag, svo ég pakkaði niður og flutti til Dúbaí í september 2014. Fyrir mér var þetta góð áminning um að ég gæti treyst innsæi mínu og um að ég væri fær að taka áhættu.“

Hún segir að dýrmætasta reynslan hingað til hafi verið í fyrsta alvöru starfinu sem var hjá alhliða markaðsetningarfyrirtæki sem hún starfaði hjá árið 2015.

Erna hefur blómstrað síðan hún flutti til Dúbaí fyrir fimm árum.
„Þar sem þetta var lítil og nýtískuleg stofa þurftu allir að vera inni í öllu og taka að sér verkefni þrátt fyrir að þau féllu ekki endilega að starfslýsingu þeirra. Við vorum lítil eining sem þýddi að ég þurfti að taka þátt í öllum hliðum starfseminnar. Þar var mér einfaldlega kastað út í djúpu laugina og það var ekki um annað að ræða en að taka til sunds og halda í við hina. Þessi reynsla var svo dýrmæt vegna þess að þar fékk ég innsýn í allt sem viðkemur markaðsdeild, allt frá þróun vörumerkja-markaðssetningar, viðburðastjórnun, stafrænni markaðssetningu og myndatökum til þróun og stefnumótunar á samfélagsmiðlum.“

Átti meira skilið

Erna segir að karlar séu í meirihluta og ríkjandi í þessum bransa og að hún hafi stundum verið í þeirri stöðu að fá ekki þær launahækkanir sem hún taldi sig eiga skilið.

„Mér buðust lágar bónusgreiðslur af og til og var lofað stöðuhækkunum sem ég fékk þó aldrei. Mér fannst ég eiga meira skilið fyrir mína vinnu og vissi að þetta væri ekki eitthvað sem að hæf kona myndi láta bjóða sér. Ég vissi að yfirmaður minn, sem var kona, hefði ekki komist á þann stað sem hún er á í dag með því að sætta sig við lágar bónusgreiðslur í stað varanlegrar launahækkunar svo hvers vegna ætti ég að gera það? Þá áttaði ég mig á því að ég yrði sjálf að bera ábyrgð á mínum eigin vexti, svo ég fór að einbeita mér að mínu eigin hliðarverkefni. Árið 2017 keypti ég ásamt nokkrum viðskiptafélögum réttindi á samfélagsmiðla-prenthugbúnaði og prenturum í þeim tilgangi að auka tekjur mínar. Hagnaðurinn varð nægilega mikill til þess að ég gat hætt í vinnunni minni og einbeitt mér að prentfyrirtækinu. Skömmu síðar sótti ég um starf hjá Huda Beauty og seldi prentarana í framhaldi af því.“

Hún byrjaði að starfa hjá Huda Beauty í apríl 2018.

Erna segir að heimurinn þarna sé mjög karllægur og hún hafi þurft að hafa mikið fyrir hlutunum.
„Ég rakst á grein um Huda Kattan, sem er öflug viðskiptakona. Það hvernig hún fór að því að gera bloggsíðu að einu hraðast vaxandi snyrtivörumerkinu í heiminum var mér mikill innblástur og mig langaði til þess að starfa þar. Ég sendi fyrirspurn og ferilskrá til þeirra og fékk svar með starfslýsingu yfirmanns á sviði samfélagsmiðla. Þetta var mjög stíft ferli þar sem ég fór í fimm starfsviðtöl áður en ég fékk að vita að af þeim 200 sem sóttu um hefði það verið ég sem fékk starfið.“

Hún segir að vörumerkið sé samfélagsmiðladrifið og vaxi á sama hraða og samfélagsmiðlarnir.

„Sem þýðir að það gengur allt mjög hratt fyrir sig. Huda Beauty er með samanlagt um 45 milljónir fylgjendur á samfélagsmiðlum sem er meira en nokkur annar snyrtivöruframleiðandi í heiminum og það þýðir að við erum mjög áberandi og miklir áhrifavaldar innan þess geira. En það er mjög mikil samkeppni í snyrtivöruheiminum og því margt sem þarf að hafa í huga. Huda Beauty er að keppa við þúsundir annarra vörumerkja og því þarf ég alltaf að vera meðvituð um samkeppnina og þær nýjungar sem eru í gangi og gæta þess að við séum alltaf skrefi á undan. Fegurðar og snyrtivöru bransinn er ólíkur öllu sem ég hef starfað við áður og ég komst fljótt að því hversu kraftmikill og hraður þessi heimur er.“

Vill valdefla konur

Hún segir að margt hafi breyst undanfarið með tilliti til hugmynda um fegurð og margbreytileika.

„Og því þurfum við að gæta þess hvernig við komum tilgangi vörumerkisins og kostum vörunnar til skila. Sem vörumerki erum við stolt af nýsköpun og nýjungum okkar en það getur verið krefjandi að endurspegla það stolt og sýn á réttan hátt á samfélagsmiðlum.“

Lífið leikur við hana ytra.
Erna segir það mjög hvetjandi að vinna fyrir svona mikla hugsjónamanneskju. Huda hugsi öðruvísi en allir aðrir og hugsjónum hennar fyrir framtíð Huda Beauty eru engin takmörk sett.

„Sem kona frá Mið-Austurlöndum hefur Huda þrátt fyrir margar hindranir komist virkilega langt á alþjóðlegum vettvangi, svo viðskiptaferðalag hennar er virkilega hvetjandi fyrir konu eins og mig sem kemur frá litlu samfélagi þegar horft er til aðþjóðarmarkaðar. Hún er virkilega dugleg kona sem hefur kennt mér mikið um það að yfirstíga þær hindranir sem ég hef talið vera í vegi mínum og Huda fer sínar eigin leiðir til þess að ná enn meiri árangri. Hún er mikill talsmaður þess að valdefla konur og það hvetur alla á skrifstofunni áfram, þar á meðal mig.“

Erna segir að mikill metnaður hafi komið henni á þann stað sem hún er í dag.

„Þessi metnaður er mikið til kominn af þeirri staðreynd að ég er alltaf að reyna að vera betri í dag en í gær. Ég les mikið og fer á námskeið í þeim tilgangi að dýpka skilning minn á viðskiptum. Af þessu hef ég lært eitt sem mér finnst vera lykilatriði og sem ég hef sjálf haft fyrir reglu er að umkringja mig góðu og kláru fólki sem gefur af sér, og sem ég get stöðugt lært af. Ég vil aldrei vera klárasta manneskjan á staðnum, heldur sú sem getur lært af þekkingu þeirra og heyra þeirra álit.“

Verður að vita hvers virði þú ert

Hún ráðleggur öðrum í svipaðir stöðu að vita alltaf hvers virði maður er og gefa það aldrei eftir.

„Þegar þú ert búin að öðlast reynslu og ómetanlega þekkingu á þínu sviði ert þú búin að ávinna þér rétt til þess að berjast fyrir þínu. Ef þú telur sjálfa þig mikils virði kemur þú öðrum þannig fyrir sjónir. Hvernig getur þú ætlast til þess að aðrir telji þig mikils virði eða eiga rétt á hærri launum og stöðuhækkunum ef þú gerir það ekki sjálf? Ekki láta neina aðra um að skilgreina virði þitt; heldur stattu sjálf með þinni sannfæringu/fullvissu og vertu sjálfri þér trú.“

Erna segir að það sé mjög mikilvægt að mynda innihaldsmikil sambönd og byggja upp traust.

Milli þess að vinna mikið er alltaf hægt að gera eitthvað skemmtilegt inn á milli.
„Ég set sjálfa mig oft í óþægilegar aðstæður þar sem ég hitti fyrir mismunandi menningarheima og skoðanir og það hvetur mig áfram. Ég vil fá innsýn frá fólki á mismunandi aldri og af mismunandi bakgrunni því það hvetur mig til að hugsa sífellt á nýjan hátt og veitir mér dýpri skilning. Það er mér mikils virði að viðskiptavinir mínir, samstarfsfélagar og vinir treysti skoðunum mínum. Ég hef sterkar skoðanir en ég tek líka tillit til þess sem aðrir hafa að segja. Það er mér mikils virði að vera hvati til breytinga.“

Erna segir að enskukunnáttan hafi verið eitthvað sem háði henni til að byrja með.

„Viðskiptaorðaforðinn minn var ágætur en félagslegi og hversdagslegi orðaforðinn var ekki alveg nógu góður. Mér tókst ekki að orða hlutina eða tengjast eins auðveldlega og ég er vön því það skorti á orðaforðann minn. Íslendingar eiga það til að vera beinskeyttari en aðrar þjóðir, að því leiti að við komum okkur beint að efninu. Ég þurfti að laga mig að því hvernig aðrar þjóðir fóðra eða mýkja samskiptin sín í gegnum tölvupóstana sína og öll samskipti. Ég áttaði mig á því hvað það væri mikilvægt að byggja upp félagslega orðaforðann minn því það er svo mikilvægt að geta byggt upp tengslanet og sambönd við annað fólk almennt. Ég skil að sumt ungt fólk á Íslandi sem langar að flytja erlendis og byrja starfsferilinn sinn þar geta fundið til ákveðinnar hræðslu eða óöryggis vegna enskukunnáttu sinnar, og jafnvel látið það stoppa sig, en það ætti ekki að gera það, af því það er svo auðvelt að aðlagast. Ef ég gat þetta þá geta það allir.“

Misst af mörgum mikilvægum stundum

Hún segir að starfsferillinn hafi svo sannarlega kostað hana mikið.

„Þegar maður býr og starfar erlendis er fjarlægðin ekki bara líkamleg heldur einnig tilfinningaleg. Tímamismunurinn hefur mikil áhrif á það hversu mikið ég get talað við fjölskyldu og vini. Ég hef einnig misst af svo mörgu mikilvægu í lífi vina minna, t.d. af brúðkaupum og fæðingum barna og það getur verið erfitt. Sem betur fer eru vinir og fjölskylda mín mjög skilningsríki og styðja mig í því sem ég er að gera.“

Huda Beauty er að stækka mjög ört og ætlar Erna að vaxa með fyrirtækinu og leggja vörumerkinu lið með þekkingu og reynslu sinni.

„Ég veit að ég mun á endanum koma aftur til Íslands með sérþekkingu mína á alhliða markaðssetningu og vörumerkja stjórnun, tilbúin til þess að leggja íslenskum fyrirtækjum lið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×