Umfjöllun og viðtöl: KR - Þór Þ. 98-89 | Meistararnir tóku forystuna

Axel Örn Sæmundarson skrifar
vísir/daníel þór

Hér í kvöld mættust lið KR og Þórs úr Þorlákshöfn í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Dominos deild karla. KR vann fyrsta leikinn 99-91 í DHL höllinni en Þórsarar jöfnuðu í Þorlákshöfn með 102-90 sigri. Það var frábærlega mætt í DHL-höllina í kvöld og var stúkan í góðum gír.
 
Leikurinn fór skemmtilega af stað og var mjög jafn til að byrja með. Liðin voru mikið að skiptast á forystunni í leiknum og var mikið jafnræði með liðunum í öllum þáttum leiksins. KR var þó alltaf einu skrefi á undan gestunum úr Þorlákshöfn.
 
Annar leikhluti fór skemmtilega af stað og voru Þórsarar aðeins öflugri til að byrja með. Þórsarar unnu upp forystu KR og jöfnuðu leikinn og héldu liðin áfram að skiptast á forystum. KR tók svo góðan sprett undir lok annars leikhluta og voru þeir að setja niður öll stóru skotin og finna nokkur stopp í vörninni.

Kristófer Acox var frábær í fyrri hálfleik í kvöld og var með 14 stig eftir fyrri hálfleik, Mike di Nunno hafði líka mjög hægt um sig en hrökk svo í gang og setti niður 11 stig á nokkrum mínútum. Atkvæðamestur hjá Þór var Nickolas Tomsick með 14 stig en hann einmitt hrökk líka í gang í öðrum leikhlutanum og setti niður nokkra þrista á stuttum tíma.
 
Það var einhvern vegin sama upp á teningnum í seinni hálfleik. Þór var að spila vel sóknarlega en svo tóku KR-ingar hrikalega góð áhlaup. Helgi Már Magnússon var gjörsamlega frábær í seinni hálfleik og setti hvert skotið af fætur öðru ofan í.

Kristófer og Julian Boyd voru líka drjúgir inn í teig fyrir KR. Tomsick og Jaka voru góðir fyrir Þór en það dugði ekki til hér í kvöld. KR spilaði vel hér í kvöld og náðu að stýra leiknum vel og setja niður stemmingsskot. KR sigur niðurstaðan í kvöld í hörkuleik í DHL höllinni.
 
Af hverju vann KR?
KR voru grimmari í leiknum heilt yfir. Þeir fengu gríðarlega góð áhlaup frá nokkrum mönnum hér í kvöld sem reyndist Þórsurum mjög erfitt. Mike Di Nunno og Helgi Már tóku sitthvort áhlaupið þar sem öll þeira skot enduðu ofan í alveg sama hvar þeir voru að skjóta.
 
Hverjir stóðu uppúr?
Kristófer var frábær hér í kvöld með 26 stig. Einnig fengu KR 19 stig frá Julian Boyd sem var flottur.
Nickolas Tomsick var flottur með 22 stig fyrir Þórsara. Jaka átti góðan dag hjá Þór og skilaði 18 stigum.
 
Hvað gekk illa?
Þórsarar náðu aldrei að mynda sér neina forystu í leiknum og voru því alltaf að elta í þessum leik. Þór náði oft að jafna leikinn og vera nálægt þeim en náðu aldrei að komast vel yfir og búa til forystu.
 
Kinu hefur séð betri daga en þennan hér í kvöld. Endar leikinn með 14 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar en hefði getað gert mikið betur. 41% skotnýting hjá þessum toppnáunga sem kemur vonandi tvíefldur til leiks í Þorlákshöfn á mánudaginn.
 
Hvað gerist næst?
Liðin mætast á mánudaginn í fjórða leik þessara liða. KR getur klárað þetta í Þorlákshöfn.

Ingi var ánægður í kvöld. vísir/anton

Ingi: Helgi eins og gott rauðvín
„Stoltur af mínum mönnum og þá vinnu sem þeir lögðu í leikinn“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari KR eftir sigur gegn Þór Þorlákshöfn hér í kvöld.
 
KR voru hrikalega duglegir hér í kvöld og voru tilbúnir í slaginn. Ingi vildi meina að sínir menn væru að setja tóninn fyrir leikinn á mánudaginn.
 
„Vinnusemi og við börðumst meira en þeir í dag, öfugt við hina tvo leikina. Hér erum við að setja tón fyrir leikinn á mánudaginn. Fáum gott framlag af bekknum.“
 
Helgi Már Magnússon gaf KR frábærar mínútur í kvöld og endar leikinn með 15 stig. Ingi Þór var gríðarlega ánægður með hans frammistöðu og hafði aðeins eitt um það að segja.
 
„Helgi var bara eins og gott rauðvín“
 
Það er mikið skorað í þessum leikjum og bæði lið eru að skora 90 stig lágmark í öllum leikjum.
 
„Í leik tvö var þetta slök vörn, hér í dag var mikið af stórum skotum og fullmikið af auðveldum körfum. Ég var ekkert rosalega ánægður að þeir voru með 46 stig í hálfleik en við vorum yfir svo það er fyrir öllu.“
 
KR-ingarnir eru að rúlla þetta á 8 mönnum sem spila mikið hér í kvöld. Þetta eru allt saman skrokkar á besta aldri og vildi Ingi fara að koma þeim í „treatment“ hjá sjúkraþjálfurunum sem allra fyrst.
 
„Við þurfum að laga líkamanna á okkar mönnum og koma þeim í góð mál. Við erum með flott crew í því og þeir verða orðnir klárir á mánudaginn.“

Baldur Þór: Leiðinlegt að tapa og við þurfum að gera betur
„Leiðinlegt að tapa og við þurfum bara að gera betur varnarlega á mörgum vígstöðum“ sagði Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Þórs eftir tap gegn KR í kvöld.
 
Þórsarar fá á sig 98 stig hér í kvöld og voru mikið af þeim stigum alltof einföld og þurftu KR að hafa lítið fyrir þeim. Baldri fannst þurfa að laga töluvert í varnarleiknum.
 
„Það er bara mikið, sérstaklega 1 á 1 vörn, halda mönnum fyrir framan sig.“
 
Baldur var eðlilega ekki ánægður með leikinn hér í kvöld og var fámáll í viðtali eftir leikinn. Sóknarleikurinn hjá Þór var ágætur en þeir náðu aldrei að komast nægilega mikið yfir í þessum leik til að vera að leiða hann eitthvað.
 
„Við skorum 89 stig, það er vanalega talið gott í körfubolta“
 
Fjórði leikur þessara liða er á mánudaginn í Þorlákshöfn og var Baldur viss um að það væri ein niðurstaða sem kæmi þar í ljós.
 
„Jújú við bara verðum að vinna þann leik og það er ekkert annað í boði.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.