Viðskipti innlent

Í­þrótta­kálfur Moggans kominn á hilluna

Atli Ísleifsson skrifar
Íþróttakálfur Morgunblaðsins birtist fyrst lesendum árið 1971.
Íþróttakálfur Morgunblaðsins birtist fyrst lesendum árið 1971. Vísir/Jóhann
Glöggir lesendur Morgunblaðsins hafa tekið eftir því að fyrr í vikunni var hætt að gefa út sérstakan íþróttakálf með blaðinu. Víðir Sigurðsson, íþróttaritstjóri Morgunblaðsins, segir að vissulega séu um ákveðin tímamót að ræða en að þetta hafi gerst áður.

„Íþróttakálfurinn í blaðinu kom fyrst árið 1971, þriðjudagskálfurinn, og hefur verið nokkurn veginn fastur frá 1996, 1997. Þetta hefur hins vegar verið gert áður, á árunum 2003, 2004. Þá var kálfurinn lagður af í bili og íþróttirnar færðar aftur í blaðið. Þetta er því þekkt í sögunni og það er aldrei að vita nema hann birtist aftur á einhverjum tímapunkti.“

Þetta er því ekki einhver endanlegur dauðadómur yfir íþróttakálfinum?

„Nei, alls ekki. Þetta snýst um uppröðunina á blaðinu eins og hún er núna og verður í einhvern tíma. Síðan kemur bara framhaldið í ljós. Eins og lesendur hafa kannski séð þá er blaðið 32 síður núna, þessa minnstu daga. Í 32 síðna blaði gekk ekki uppröðunin á efninu upp öðruvísi en að færa sportið. Þetta er bara tæknileg útfærsla. Það var ákveðið að vera með þetta þarna um tíma,“ segir Víðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×