Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Selfoss 28-29 │ Lygilegar lokasekúndur í Breiðholtinu

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Selfoss er komið í undanúrslit eftir dramatískan eins marks sigur á ÍR, 28-29, þar sem úrslitin réðust á loka sekúndunni líkt og í síðasta leik.

Það voru heimamenn sem mættu ákveðnari til leiks og þeir mættu af þvílíkum krafti. Þeir voru fastir fyrir í vörninni og keyrðu hratt á Selfyssingana í sókn og voru þegar mest lét fimm mörkum yfir, en það voru heimamenn sem leiddu að fyrri hálfleik loknum með tveimur mörkum, 18-16. 

Atli Ævar Ingólfsson fékk beint rautt spjald þegar aðeins korter var liðið af leiknum. Dómarar leiksins nýttu sér myndbandsdómgæslu til að dæma brotið og niðurstaðan beint rautt spjald. 

Seinni hálfleikurinn var hnífjafn en ÍR með forystuna lengst af, þeir köstuðu þessum sigri frá sér á loka mínútunum þegar þeir hleyptu Selfossi inní leikinn. Gestirnir komust fyrst í forystu í leiknum í stöðunni 27-28. Pawel Kiepulski varði sitt annað skot í næstu sókn ÍR og í kjölfarið skoraði Elvar Örn Jónsson og kom sínum mönnum í tveggja marka forystu. Á loka mínútunni fengu ÍR-ingar tvær tilraunir til þess að jafna leikinn eftir að þeir komust í 28-29. 

Kristján Orri Jóhannsson átti að lokum skot yfir allan völlinn í opið mark Selfyssingar en skotið hafnaði í stönginni, ótrúlegar loka sekúndur en Selfoss fagnaði að lokum eins marks sigri, 28-29.

Af hverju vann Selfoss? 

Þeir voru hreinlega heppnari á lokakaflanum. ÍR var betri aðilinn lengst af en þeir köstuðu sigrinum frá sér. Það var þó seigla í Selfyssingum sem kláruðu þennan leik og leikmenn stigu upp á lykil mómentum. 

Hverjir stóðu upp úr?

Haukur Þrastarson var að vanda gríðalega mikilvægur fyrir Selfoss og var hann þeirra markahæsti maður með 8 mörk. Hergeir Grímsson var á eftir honum með 6 mörk en hann var einnig gríðalega öflugur í vörninni. 

Leikmenn ÍR eiga allir hrós skilið fyrir það hvernig þeir mættu til leiks í kvöld en Pétur Árni Hauksson og Björgvin Þór Hólmgeirsson frábærir fyrir sitt lið. Sveinn Andri Sveinsson var síðan kletturinn í vörninni.

Hvað gekk illa? 

Fyrst og fremst gekk ÍR illa að klára leikinn, það er svekkjandi fyrir þá eftir þennan frábæra leik. Vörn og markvarsla var lítil sem engin hjá Selfossi í fyrri hálfleik en það lagaðist í seinni hálfleik og þeir uppskáru eftir því. 

Hvað er framundan? 

Selfoss er komið í undanúrslit þar sem þeir mæta Val en ÍR er farið í sumarfrí.

 

Bjarni Fritz: Gat ekki verið sárara og tæpara

„Þetta er hrikalegt,“ voru fyrstu orð Bjarna Fritzsonar, þjálfara ÍR, eftir að ÍR datt úr leik í átta liða úrslitum Olís-deildar karla. 

„Þetta er svo hrikalega sárt. Ég var með leikhlésspjaldið tilbúið, en við vorum að keyra á þetta og vorum að ná að jafna svo ég beið með það.“

„Svo fengum við þetta skot yfir allan völlinn í stöngina, þetta gat ekki verið sárara og tæpara,“ sagði Bjarni um loka mínútuna og bætir því við að þetta sé enn meira svekkjandi í ljósi þess að hafa klúðrað loka skotinu í fyrri leiknum líka.

ÍR hafði tökin á leiknum lengst af og voru Selfyssingum mjög erfiðir. Bjarni segir að þeir geti sjálfum sér um kennt og köstuðu þeir þessum leik frá sér á grátlegan hátt.

„Við vorum á kafla í leiknum óskynsamir og gerðum okkur seka um hrikalega feila. Þeir slóu okkur aðeins út af laginu þegar þeir mættu okkur framarlega í fyrri hálfleik. En svo í seinni hálfleik vorum við með þetta en köstuðum þessu frá okkur.“

„Við vorum að spila á móti frábæru liði, mér fannst við alls ekki lakari í þessu einvígi og ég er djöfulli svekktur að þetta hafi farið 2-0 og að við höfum ekki fengið þennan úrslitaleik á miðvikudaginn.“

ÍR er komið í sumarfrí og nýverið skrifaði Bjarni undir nýjan samning og er það staðfest að hann verði áfram með liðið á næsta tímabili. Hann segir það ekki beint vonbrigði hvernig tímabilið spilaðist hjá þeim en að það sé vissulega vonbrigði hvernig þeir detta út í dag.

„Alls ekki vonbrigði, ég er sár núna og það eru auðvitað vonbrigði að detta út 2-0 í einvígi þar sem við gátum farið í úrslitaleik og jafnvel klárað. Enn deildin í heild sinni spilaðist bara á pari hjá okkur.“

„Þetta er bara ógeðslega svekkjandi“ sagði Bjarni að lokum, skiljanlega mjög svekktur eftir leik

Guðni Ingvars: Mér fannst við vera ennþá í rútunni

„Við unnum þetta á einhverri Selfoss seiglu“ sagði Guðni Ingvarsson, leikmaður Selfoss

„Maður getur eiginlega ekki verið ánægðari með þetta því við hefðum ekki vilja enda í oddaleik, mér fannst þeir bara búnir að ná einhverju taki á okkur“

„Ég verð að hrósa ÍR, þeir voru ótrúlega öflugir. Mér fannst við bara vera ennþá í rútunni allan fyrri hálfleikinn. Þetta var bara hörkuleikur þar sem þetta datt bara okkar meginn“

Guðni fékk kallið snemma eftir að Atli Ævar Ingólfsson fékk að líta rauða spjaldið. Guðni segir að það sé ekki annað hægt en að vera tilbúin í svona leik enda sé gaman að spila í þessu umhverfi. 

„Þegar maður er kominn á þennan aldur þá þarf maður eiginlega úrslitakeppni til að fá smá spark í rassinn og það er rosalega gaman að spila í þessu umhverfi“

Það er ljóst að Selfoss mætir Val í undanúrslitum, Guðni vill ekki meina að þeir þurfi að spila mikið betur til að vinna Val því ÍR hafi verið þeim sambærilegir í þessu einvígi en bætir því jafnframt  við að það megi alltaf bæta sig. 

Eins og oft áður var lítil markvarsla hjá Selfyssingum, Guðni segir það auðvitað sterkt að vinna leiki þrátt fyrir það og hrósar líka markvörðunum fyrir þá bolta sem þeir tóku á mikilvægum tímapunktum í leiknum.

„Þetta á nátturlega ekki að vera þannig að við séum að vinna án markvörslu, en jú það má hrósa okkur útileikmönnum fyrir það en já við þurfum auðvitað aðeins meiri markvörslu“ sagði Guðni að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.