Umfjöllun og viðtöl: FH - Akureyri 29-20 | FH aftur á sigurbraut

Gabríel Sighvatsson skrifar
Birgir Már Birgisson, leikmaður FH.
Birgir Már Birgisson, leikmaður FH. vísir/bára
FH hafði betur gegn Akureyringum í Kaplakrika í kvöld í næstsíðustu umferð Olís-deildar karla.

FH-ingar áttu sigurinn fyllilega skilið. Þeir áttu erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik stigu þeir upp og unnu að lokum stórsigur.

Akureyri var yfir í hálfleik en í seinni hálfleik skoruðu þeir ekki mark í langan tíma og þegar 10 mínútur lifðu leiks var strax ljóst hvert stigin væru að fara.

Akureyringar eiga einn leik eftir til að reyna að bjarga sér frá falli.

Af hverju vann FH?

Hafnfirðingarnir voru í erfiðleikum sóknarlega í fyrri hálfleik og brenndu mikið af dauðafærum af og þá var markmaður gestanna í stuði allan leikinn.

Þá kom Kristófer Fannar Guðmundsson vel inni í leikinn og hjálpaði til með nokkrum vörslum. Að lokum skinu gæðin í gegn hjá FH og þeir gengu frá leiknum.

Hvað gekk illa?

Akureyringar voru flottir í fyrri hálfleik og höfðu forystu í hálfleik. Í seinni hálfleik datt allt í sundur hjá þeim.

Sóknarleikurinn var í vandræðum. Leonid Mykhailutenko meiddist snemma leiks og var óleikfæri og enginn steig upp í fjarveru hans. Gestirnir skoruðu ekki mark í korter í seinni hálfleik og skoruðu aðeins 7 mörk í heildina á seinni 30 mínútunum.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnar Þór Fylkisson var frábær í marki Akureyrar í kvöld og hélt liðinu á floti í seinni hálfleik en þrátt fyrir flotta frammistöðu tókst honum ekki að koma í veg fyrir tapið.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur hjá heimamönnum með 6 mörk rétt eins og Patrekur Stefánsson og Hafþór Már Vignisson hjá gestunum.

Hvað gerist næst?

Eftir úrslit dagsins er ljóst að Akureyri fær einn enn leik til að reyna að ná í þau tvö stig sem liðið þarf til að halda sér uppi en sá leikur verður á laugardaginn gegn ÍR fyrir norðan. Þá þurfa þeir líka að treysta á tap hjá Frömurum á sama tíma.

4. sætið er FH-inga eftir sigurinn þar sem Eyjamenn gerðu jafntefli við Hauka og Valsmenn gerðu engin mistök gegn KA en það þýðir að FH-ingar mæta ÍBV í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en eiga lokaleik gegn KA í deildinni fyrir það.

Úr leik kvöldsins.vísir/daníel
Halldór Jóhann: Sáttur með 4. sætið

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, var mjög ánægður eftir að lið hans tryggði sér 4. sætið í deildinni í ár.

„Ég er mjög sáttur, sérstaklega með seinni hálfleikinn, þeir skora 7 mörk og voru búnir að skora 4 þegar 24 mínútur voru búnar af seinni. Ég er virkilega ánægður með það og eiginlega ótrúlegt að skora 29 mörk í þessum leik miðað við að hafa farið með 13-14 dauðafæri einn á móti markmanni. Það var ótrúlegt hvað okkur tókst að bomba í hann, hann gerði bara vel.”

FH gerði vel í seinni hálfleik og þar sýndu þeir úr hverju þeir voru gerðir.

„Þetta var mjög fínn seinni hálfleikur. Við spilum vel allan tímann sóknarlega, það er aðallega færanýtingin sem gerir okkur erfitt fyrir fyrstu 30 mínúturnar.”

„Við töluðum um að róa okkur aðeins niður. Við vorum svolítið æstir, vildum helst gera 2 mörk í einu og verjast 2 vörnum í einu. Við þurftum að núllstilla okkur og ná áttum og halda áfram að spila okkur í gegn eins og við höfðum verið að gera.”

„Við breyttum í lok fyrri hálfleiks í framliggjandi 5-1 vörn og svo fórum við alveg í 3-2 í seinni hálfleik og það var eiginlega banabiti þeirra. Við vorum að vinna rosa marga bolta.”

Eftir leik var ljóst að FH myndi enda í 4. sæti óháð öðrum úrslitum í lokaumferðinni.

„Ef að svo er, þá er það frábært, það var keppni milli ÍBV um 4. sætið og við erum búnir að vera í þessari stöðu í allan vetur, fyrir mót hefði ég verið sáttur með það. Við þurfum samt að klára síðasta leikinn með sigri og enda með 29 stig. Fyrir mér er munur á að enda með 29 eða 27 stig,”

„Það er mjög jákvætt að geta farið pressulausir í síðasta leik og aðeins hugsað um hópinn, við erum með smá meiðsli og það er gott að geta hugsað um það hvort menn þurfi að spila hálfmeiddir eða ekki.”

Halldór var ánægður með að vera komnir á sigurbraut aftur en talaði um mikilvægi þess að klára tímabilið vel gegn gömlum félögum.

„Við viljum auðvitað vinna síðasta leikinn en það verður erfitt fyrir norðan á mínum gamla heimavelli, KA-heimilinu. Það verður frábært að koma þangað aftur.”

Það var hart barist.vísir/daníel
Geir: Hef áhyggjur af Leonid

„Eftir góðan fyrri hálfleik og í sjálfu sér góðar 40 mínútur, datt botninn úr okkur. Við áttum erfitt sóknarlega það sem eftir lifði leiks og áttum á köflum erfitt að koma okkur í stöður og nýttum kannski illa þau færi sem við bjuggum til.”

„Við vorum fáliðaðir og höfðum ekki mikið til að skipta úr og menn virkuðu pínu þreyttir. Þannig að svekktur með niðurstöðuna eftir góðar 40 mínútur.”

Leonid Mykhailutenko, lykilmaður hjá Akureyringum meiddist á ökkla snemma leiks og þurfti að yfirgefa völlinn. Það var ljóst að Akureyringar söknuðu hans en í seinni hálfleik tókst þeim aðeins að skora 7 mörk.

„Sóknarleikurinn var erfiður og við lentum í vandræðum og náðum ekki að leysa það nægilega vel og það verður okkur að falli.”

„Hann misstígur sig og ég hef áhyggjur af því. Hvort hann verði klár fyrir laugardaginn veit ég ekki. Hann lítur ekkert sérstaklega út og það er mjög vont að missa hann. Það er vont að missa hann til að geta dreift álaginu sóknar og varnarlega og þetta er erfiður biti.”

Það er ljóst að Akureyri þarf að vinna sinn lokaleik en þeir þurfa líka að treysta á önnur úrslit til að falla ekki.

„Við þurfum að byrja á því að vinna okkar leik og svo sjáum við bara hvernig aðrir leikir fara og án þess að gera það þá skipta önnur úrslit engu máli. Við þurfum fyrst að klára okkar og svo sjáum við hvað gerist á öðrum vígstöðvum.”

Einar Rafn: Góð praufraun fyrir Vestmannaeyjar

„Við vorum fyrst og fremst að spila almennilega vörn í seinni hálfleik. Við fórum aðeins framar á völlinn og held þeir hafi skorað 4 mörk fyrstu 25 mínúturnar (í seinni hálfleik). Þannig að það var fyrst og fremst vörnin sem skóp það og svo fórum við að skora fyrir framan markmanninn, það var kominn tími á það. Hann var með 20 bolta eftir 45 mínútur eða eitthvað álíka.” sagði Einar Rafn Eiðssonm, fyrirliði FH, eftir sigur gegn Akureyri.

„Við vorum aðeins aggresívari varnarlega, fórum lengra á móti þeim. Við gáfum okkur aðeins meiri tíma, hann (Arnar Þór, markmaður Akureyrar) var örugglega búinn að verja 10 dauðafæri í fyrri hálfleik. Við fórum að slaka aðeins á og vera aggressívari í vörninni.”

„Kristófer (Fannar Guðmundsson) kom flottur inn, tók marga flotta bolta. 6-0 vörn var ekki alveg að virka, þannig að við fórum lengra út og þeir áttu engin svör við því.”

Einar var ekki búinn að líta á töfluna en eftir að hafa heyrt úrslit kvöldsins var hann ánægður með stöðu liðsins.

„Við erum að fara norður á erfiðasta útivöll landsins, KA-heimilið eru með geggjað hús og það verður góð praufraun fyrir að fara til Vestmannaeyja og við förum þangað fyrst og fremst til að vinna leikinn.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira