Skoðun

Bréf kennara til Kolbrúnar

Jens G. Einarsson skrifar
Sæl Kolbrún,

Mikið var ég leiður og sleginn við að lesa ritstjórnarpistil þinn í Fréttablaðinu í gær. Þú sem ert mikill áhrifavaldur og oft á tíðum afbragðs gagnrýnandi í sjónvarpsþættinum Kiljunni.

Af hverju leiður, jú þú tekur eina meginstoð samfélagsins, skólastarfið, og gagnrýnir starfsmenn þess harkalega af töluverðri vanþekkingu.  

Tilvitnun „Mjög margir hafa lent í sömu stöðu og þessi drengur”.  - Hvað þýðir „Mjög margir” í þínum huga? „Skólakerfið ... fyrst og fremst sé tekið mið af þörfum kennara” -  Hverjar eru þessar þarfir kennara? Að mæta klukkan 8:00 í skólann? Stærð nemendahópa? Lengd kennslustunda? Matartímar?  O.s.frv.

Ég vil bjóða þér og ritstjórn Fréttablaðsins að koma og skoða skólastarf í Stóru - Vogaskóla þar sem ég kenni í dag. Þar sem allir kennarar, stjórnendur og starfsfólk rær að því öllum árum að kenna, fræða, ala upp og reyna eftir fremsta megni að hlúa að hverjum og einum einstaklingi svo honum megi líða sem allra best í skólanum og í eigin skinni.   

Þegar þú gagnrýnir bók þá geri ég ráð fyrir að fyrst sé bókin lesin, forvitnast dálítið um höfundinn og í hvaða samhengi hún var skrifuð. Hefði ekki verið gott að gera það líka í þessu tilfelli?

Þess vegna býð ég þér í skólann okkar.

Hvað varðar “upprisu” Bubba þá get ég upplýst þig um það að við vorum á sama tíma báðir nemendur í Vogaskóla sem þá var stærsti grunnskóli landsins. Ekki minnist ég þess að þar hafi kennarar gengið um og tilkynnt nemendum  að þeir væru ómögulegir í stafsetningu eða stærðfræði. Man þó að Hjörtur dönskukennari hnippti í mig og sagði að þetta gengi ekki svona lengur hjá mér, ég yrði að taka mig á. Allt rétt og satt þar.

Í lokin Kolbrún, þá vil ég gera lokaorð þín í pistlinum að mínum með örlítilli breytingu þó.

„Kennarar eiga að laða það besta fram hjá ungum nemendum sem eiga sjálfir að fá að velja sér áherslur”

Með vinsemd og virðingu.

Höfundur er umsjónakennari 10. bekkjar Stóru-Vogaskóla og stjórnarmaður í Félagi grunnskólakennari.

 




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×