Viðskipti erlent

Apple kynnti kreditkort og streymisveitu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona mun kortið líta út.
Svona mun kortið líta út. Mynd/Apple
Apple hefur tilkynnt að það hyggist gefa út kreditkort. Kortið mun bera nafnið Apple Card. Þá kynnti fyrirtækið einnig til leiks nýja streymisveitu.

Kreditkortið mun bæði verða til í hefðbundnu formi auk þess sem að rafræn útgáfa af því verður útbúin fyrir iPhone-síma fyrirtækisins. iPhone-útgáfan mun fela í sér tvö prósent endurgreiðslu við hver kaup auk þess sem að ekkert árgjald verður rukkað fyrir símaútgáfuna.

Kortið er unnið í sameiningu með bandaríska bankanum Goldman Sachs og kortafyrirtækinu Mastercard en kortið var kynnt til leiks, ásamt ýmsum öðrum vörum, á sérstökum viðburði Apple í Kaliforníu-ríki fyrr í dag.

Þá var Apple TV+ appið kynnt til leiks en með því dýfir Apple fætinum í streymisveitubransann en í appinu, sem gefið verður út í haust, má finna efni frá öðrum streymisveitum á borð við Hulu og HBO auk efnis sem Apple mun framleiða sjálft. Efni frá Netflix verður þó ekki í boði.

Apple TV+ appið verður ekki eingöngu bundið við Apple-tæki en það muna einnig koma út í útgáfum sem henta snjallsjónvörpum Samsung, LG, Sony og Vizio.

Leikstjórinn frægi Steven Spielberg er á meðal þeirra sem mun búa til efni fyrir Apple TV+ auk sjónvarpsstjarna á borð við Jennifer Aniston, Oprah Winfrey, Steve Carrell og Jason Momoa.

Þá kynnti Apple einnig nýja fréttaveitu til leiks, Apple News+ þar sem finna má fjölmörg dagblöð og tímarit á borð við Wall Street Journal, New Yorker, Vogue og National Geographic gegn áskriftargjaldi.


Tengdar fréttir

Apple selur færri iPhone

Tekjur Apple vegna sölu iPhone síma drógust saman um 15 prósent á síðasta en þrátt fyrir að tekjur af símasölu hafi dregist saman jukust tekjur fyrirtækisins af öðrum tækjum og þjónustu um 19 prósent.

Andar köldu á milli Apple og Facebook

Það er stirt á milli þeirra Tims Cook og Marks Zuckerberg. Þeir hafa deilt lengi um söfnun persónulegra upplýsinga. Facebook er nú í klandri fyrir að brjóta gegn skilmálum samkomulags við Apple með meintu njósnaappi.

Ný AirPods óvænt kynnt

Fyrri útgáfa var vinsæl jólagjöf hér á landi um síðustu jól og var víða uppseld í janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×