Viðskipti erlent

Andar köldu á milli Apple og Facebook

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þrátt fyrir hið kalda stríð tæknifyrirtækjanna eru fjölmargir sem nota Facebook í Apple-vörunum sínum.
Þrátt fyrir hið kalda stríð tæknifyrirtækjanna eru fjölmargir sem nota Facebook í Apple-vörunum sínum. Getty/Chesnot
Tim Cook, forstjóri Apple, býður Mark Zuckerberg, forstjóra Face­book, líklega ekki í mat eða drykk á næstunni en togstreitan á milli tæknirisanna tveggja jókst til muna í vikunni. Techcrunch greindi frá því á miðvikudaginn að Facebook hefði greitt fólki á milli 13 og 35 ára allt að 20 dali á viku fyrir að hlaða niður leynilegu appi sem ber nafnið Facebook Research.

Neytendur urðu varir við Re­search í auglýsingum frá betaprófunarfyrirtækjum. Eftir skráningu var hægt að ná í appið. Research var sýndareinkanettengingarforrit (VPN) sem krafðist algjörs aðgangs að símanum (e. root access) og nýtti þetta frelsi til þess að fylgjast með öllu því sem notandinn gerði með tækið. Notkunarupplýsingar voru síðan sendar heim til Facebook.

Eftir að Techcrunch birti frétt sína um málið sagði upplýingafulltrúi frá Facebook að iOS-hluta verkefnisins hefði verið hætt. Aukinheldur væri vísvitandi verið að ganga fram hjá grundvallaratriðum málsins í fréttinni.

„Það voru engin leyndarmál hérna. Appið hét beinlínis „Face­book Research App“. Við vorum ekki að „njósna“ enda fengum við samþykki allra sem vildu vera með. Að lokum viljum við taka fram að undir fimm prósent notenda voru á táningsaldri og fengu öll skriflegt leyfi foreldra.“

Mark Zuckerberg kom fyrir Bandaríkjaþing í fyrra vegna hneykslismála.Getty/Nordicphotos
Techcrunch sagði svo í gær að ásakanir Facebook væru rangar. „Fyrirtækið hafði aldrei vakið máls á Research á opinberum vettvangi og hafði nýtt sér þriðja aðila, sem minntist aldrei á Facebook, til þess að koma appinu út til notenda. Nafn Facebook kom ekki fyrir augu notenda fyrr en þeir hófu að skrá aðgang sinn. Þótt lítill hluti hafi verið á barnsaldri finnst okkur fréttnæmt að Facebook hafi ekki ákveðið að útiloka börn frá gagnasöfnunarverkefni sínu.“

Apple tilkynnti svo að fyrirtækið hefði reyndar bannað Face­book Research áður en Facebook tilkynnti að fyrirtækið hefði sjálfviljugt tekið það úr umferð. „Þetta gerðum við til þess að vernda notendur þjónustu okkar og persónuleg gögn þeirra.“

Lengri njósnasaga

En Facebook hafði áður leikið sama leik. Fyrirtækið festi kaup á Onavo fyrir um 120 milljónir dala árið 2014. Auk þess að fela í sér sýndareinkanettengingu sendi appið Onavo Protect sams konar upplýsingar um notendur til Facebook. Þannig gat Facebook til dæmis komist að því hversu mörg skilaboð færu í gegnum hið tiltölulega nýja WhatsApp og spáð fyrir um vöxt miðilsins. Facebook festi kaup á WhatsApp síðar sama ár fyrir heila 19 milljarða dala.

Apple tilkynnti í júní um að nú mættu apphönnuðir ekki lengur safna gögnum um notkun annarra appa né gögnum sem eru óþörf fyrir virkni forritsins sjálfs. Þar af leiðandi þurfti Facebook að taka Onavo Protect af App Store. En Facebook vildi ekki hætta. Þess í stað var fyrrnefnt Research-verkefni sett af stað.



Hneyksli og enn fleiri hneyksli

Matarboð með Zuckerberg hefur að öllum líkindum verið fjarstæðukennd hugmynd í augum Cooks mun lengur. Forstjórinn hefur áður kvatt sér hljóðs vegna meðferðar Facebook á persónulegum gögnum.

Síðasta ár var nefnilega hrikalegt fyrir ímynd Facebook. Svona svo vægt sé til orða tekið. Cambridge Analytica-málið, er snerist um eiginlega vopnavæðingu gagna Face­book-notenda í pólitískum tilgangi, kemur fyrst upp í hugann. Ekki má þó gleyma allnokkrum öryggisgöllum sem stefndu persónulegum gögnum milljóna notenda í hættu né því að Facebook deildi gögnum, meira að segja einkaskilaboðum, með Spotify, Netflix, Microsoft og fleiri aðilum. Jú, og því að Facebook réð andstæðingarannsóknafirma sem skrifaði svo falsfréttir um fjárfestinn George Soros eftir að sá gagnrýndi miðilinn harðlega.

Tim Cook þakklátur í Brooklyn síðastliðið haust.Getty/Stephanie Keith

Stjórarnir munnhöggvast

Cook misbauð þessi meðferð á persónulegum gögnum. Í upphafi árs kallaði hann eftir því að hið opinbera setti hertar reglur um slíkt. „Ég tel að besta reglusetningin sé engin reglusetning, að fyrirtækin setji sér eigin reglur. En ég held að við séum of langt leidd til þess að það sé möguleiki,“ sagði Cook við MSNBC.

Hann vakti athygli á því að grundvallarmunurinn á Apple og Facebook, já og Google, væri sá að neytendur, ekki auglýsendur, væru viðskiptavinir Apple. Þótt Apple hafi vissulega reynt fyrir sér á auglýsingasviðinu er það hvergi nærri sambærilegt við það sem tíðkast hjá Google og Facebook.

„Í sannleika sagt gætum við grætt ógrynni peninga ef við færum að hafa tekjur af upplýsingum viðskiptavina okkar. Ef viðskiptavinurinn væri varan. En við höfum ákveðið að gera það ekki,“ sagði Cook og var í kjölfarið spurður um hvað hann myndi gera í sporum Zuckerbergs. Svarið var einfalt: „Ég væri aldrei í hans sporum.“

Sjá einnig: Facebook gerir út njósnaapp

Og Zuckerberg svaraði fyrir sig. „Mér finnst þessi málflutningur, um að okkur sé sama um notendur af því að þeir borga okkur ekki, afar vafasamur. Og beinlínis úr öllu samhengi við sannleikann. Hið sanna er að til þess að byggja upp þjónustu sem tengir allan heiminn þarftu að taka mið af því að stór hluti fólks hefur einfaldlega ekki efni á því að borga. Þess vegna ákváðum við, eins og margir miðlar hafa gert, að byggja starfsemina á auglýsingatekjum,“ útskýrði Facebook-foringinn.

Hann vitnaði einnig til annars milljarðamærings úr tæknigeiranum, Amazon-mannsins Jeffs Bezos. „Hann sagði að til væru fyrirtæki sem ynnu hörðum höndum að því að rukka þig meira og svo fyrirtæki sem ynnu hörðum höndum að því að rukka þig minna. Við hjá Face­book föllum undir seinni flokkinn og viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa þjónustu fyrir alla.“

Cook hélt áfram og ítrekaði ákall sitt eftir reglusetningu í október. „Það er verið að nýta persónuleg gögn, vopnavæða þau gegn okkur. Við ættum ekkert að reyna að fegra sannleikann. Þetta eru beinlínis njósnir,“ sagði Cook og bætti því við að gagnaiðnaðurinn velti milljörðum á því einu að fylgjast með áhugamálum, vonum og væntingum, martröðum og draumum fólks.

Google starfrækir sams konar app og Facebook.Getty/NordicPhotos

Hrifsa leyfið af Facebook

Nýjasta vendingin í þessu kalda stríði tæknirisanna er sú að Apple hefur ákveðið að rifta samkomulaginu við Facebook sem leyfði fyrirtækinu að dreifa Research-appinu. Facebook hafði vissulega sjálft ákveðið að taka appið úr umferð á iOS, það er reyndar enn í gangi fyrir Android, en það virðist engu breyta í augum Apple.

Samkvæmt heimildum Tech­crunch varð ákvörðun Apple til þess að öpp Facebook sem eingöngu eru hugsuð fyrir starfsmenn fyrirtækisins virka ekki lengur. Þar með taldar eru prufuútgáfur fyrir næstu uppfærslur bæði Facebook og Insta­gram. Þetta hefur valdið glundroða á skrifstofum Facebook enda reiðir hið stóra tæknifyrirtæki sig á tækni til þess að skipuleggja fundi, úthluta verkefnum og svo framvegis.

Og þótt Apple vinni nú með Facebook-liðum að því að koma umræddum forritum aftur í lag er ljóst að sambandið á milli fyrirtækjanna er afar stirt. Apple gæti ákveðið að gera Facebook erfiðara fyrir að nálgast eigendur iPhone-síma, til dæmis með því að takmarka sýnileika appa fyrirtækisins í App Store.

Þá eru bandarískir öldunga­deildar­þingmenn lítt hrifnir af Research-verkefninu. Öldungadeildarþingmaðurinn Richard Blumenthal sagði að „njósnir um unglinga“ teldust ekki til rannsókna. Mark Warner, kollegi hans, kallaði eftir því að Zuckerberg lýsti yfir stuðningi við setningu nýrra reglna.


Tengdar fréttir

Facebook gerir út njósnaapp

Facebook hefur frá 2016 greitt fólki frá 13 til 35 ára allt að 20 dali á mánuði fyrir að hala niður appi að nafni Facebook Research.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×