Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Stjarnan 25-23 | ÍBV vann uppgjör særðu liðanna

Einar Kárason skrifar
Arna Sif Pálsdóttir spilaði vel fyrir ÍBV.
Arna Sif Pálsdóttir spilaði vel fyrir ÍBV. VÍSIR/BÁRA
Mikið var í húfi fyrir heimaliðið í kvöld þegar ÍBV tók á móti Stjörnunni. Eyjastúlkur þurftu nauðsynlega á sigri að halda í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en möguleiki á sæti í henni var því miður horfinn fyrir gestina úr Garðabænum.

Leikurinn fór fjörlega af stað og mikið jafnræði var með liðunum. Liðin skiptust á að skora en fyrri hluta fyrri hálfleiks leiddu gestirnir og ljóst var að þetta yrði engin gönguferð í garðinum fyrir ÍBV. Eftir um 20 mínútna leik náði heimaliðið að jafna og komast yfir og þegar flautað var til hálfleiks leiddu Eyjastúlkur með 2 mörkum, 15-13.

Svipað var uppi á teningnum í byrjun síðari hálfleiks en þegar um korter lifði leiks var ÍBV komið með vænlega forustu, 22-17. Stjörnustúlkur gáfust þó aldeilis ekki upp og klóruðu sig til baka en síðustu 10 mínúturnar var munurinn ýmist eitt eða tvö mörk, heimaliðinu í vil.

Þegar innan við mínúta var eftir af leiknum átti Stjarnan boltann og munurinn einungis eitt mark. Eyjavörnin stóð þó sterk og gaf gestunum ekki færi á því að skjóta á markið, endaði á að vinna boltann og skora síðasta mark leiksins. Lokatölur urði því 25-23 og stigin mikilvægu urðu eftir í Eyjum.

Af hverju vann ÍBV?

Vörn og sókn stóð sterk og þær vissu hversu mikið var í húfi.

Hvað gekk illa?

Leikurinn, þó stórskemmtilegur, einkenndist eilítið af töpuðum boltum, misheppnuðum skotum og allskonar dómgæslu.

Hverjar stóðu upp úr?

Í liði ÍBV skoraði Arna Sif Pálsdóttir 8 mörk en þær Karólína Bæhrenz, Kristrún Hlynsdóttir og Ester Óskarsdóttir gerðu 4. Guðný Jenný Ásmundsdóttir átti fínan leik með 13 skot varin.

Hjá Stjörnunni stóð Þórey Anna Ásgeirsdóttir upp úr með 8 mörk. Hanna G. Stefánsdóttir og Laufey Ásta Guðmundsdóttir skoruðu 4.

Hvað gerist næst?

Eyjastúlkur kíkja á granna sína á Selfossi sem verma botnsæti deildarinnar en Stjarnan tekur á móti HK.

Hrafnhildur Skúladóttir.Vísir/Vilhelm
Hrafnhildur: Vissi að þetta yrði hörkuleikur

„Þetta var eins og ég bjóst við,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, eftir leik. „Ég bjóst við að þetta yrði hörkuleikur og þetta var hörkuleikur. Við vorum með tökin allan tímann fannst mér. Þær voru alltaf að elta en það stóð tæpt í lokin. Tæpt var það en við stóðum geggjaða vörn í lokin.“

„Ég er ótrúlega ánægð með þessi stig og þau eru gríðarlega mikilvæg, sérstaklega ef Valur svo klárar sinn leik í kvöld (gegn KA/Þór).“

Eyjaliðið var einungis einu marki yfir þegar innan við mínúta var eftir leiks. Fór enginn hrollur um mannskapinn? „Neinei. Þær taka leikhlé og setja upp í síðustu sóknina. Þá skiptum við um vörn og það kom pínu hik á þær. Í sjálfu sér stóðum við þá vörn. Þær voru aldrei nálægt því að koma neinu alvöru skoti á markið í síðustu sókninni.“

„Það var mjög öruggt þarna í lokin fannst mér, varnarleikurinn,“ sagði Hrafnhildur að lokum.

Sebastian Alexandersson.Vísir/Daníel Þór
Sebastian: Síðasta sóknin skrifast á mig

Sebastian Alexanderson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum súr eftir leik. „Svekktur. Svekkjandi tap. Við erum búin að lenda í mörgum svona í vetur. Við erum að reyna nýja hluti. Við látum ÍBV aðeins klóra sér í kollinum. Oft á tíðum leystu þær vörnina mjög vel en oft á tíðum lentu þær í vandræðum. Þær eru með einhverja 18 tapaða bolta og 11 beint í hendurnar á okkur.“

„Sóknarlega vorum við að skapa okkur fullt af færum og áttum 7, 8, 9 sinnum í stöng og slá og Jenný ver nokkra mjög mikilvæga bolta á mikilvægum augnablikum. Dauðafæri.“

Basti var fullur iðrunar þegar hann talaði um lokasókn Stjörnunnar í leiknum. „Síðasta sóknin í leiknum skrifast 100% á mig. Ég hefði átt að sjá þessa varnarskiptingu. Ég var búinn að bíða eftir henni allan leikinn. Ég gerði ekki ráð fyrir henni og það er óafsakanlegt fyrir jafn reyndan þjálfara eins og mig.“

Nokkrir undarlegir dómar áttu sér stað í kvöld en það var eitt atvik sem situr eftir. „Þarna í lokin heyrum við ekkert að fríkastið sé tekið. Einn leikmaður gefur á annan sem er 5 metra frá brotinu þegar þetta er tekið. Dómararnir segja að hún sé búin að taka fríkastið. Þetta er óskiljanlegt en ég veit það ekki. Það er kannski þess vegna sem ég er þjálfari en ekki dómari.“

„Líkamlegt atgervi okkar er frábært. Við erum leikmenn á öllum aldri og erum að spila mjög orkufreka vörn með 12 menn á skýrslu. Við erum að reyna að hafa gaman fyrir áhorfendur og okkur sjálfar líka. Það að við séum tilbúnar að spila aftur á morgun er gott dæmi um hversu góða vinnu við höfum unnið í líkamlega þættinum. Við erum nógu sterkar, nógu fljótar og nógu gott þol. Handboltalega erum við alltaf að bæta okkur. Tíminn er vinur okkar. Sóknarleikurinn er alltaf að verða markvissari.“

„Við getum spilað fjórar varnir og nú geta hinir þjálfararnir farið að klóra sér í hausnum,“ sagði Basti að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira