Umfjöllun og viðtöl: Haukar - ÍR 31-29 | Haukar halda toppsætinu

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/bára
Haukar tóku í kvöld enn eitt skrefið í átt að deildarmeistaratitlinum í handbolta karla. Haukarnir unnu ÍR 31-29 í Hafnarfirðinum. Haukar voru miklu betri í fyrri hálfleik en ÍR náðu aðeins að stríða þeim í seinni, sigurinn var þó aldrei almennilega í hættu fyrir Hafnfirðingana.

ÍR byrjaði betur fyrstu fimm mínúturnar en síðan var einstefna í fyrri hálfleik. ÍR var yfir 2-3 eftir tæplega fimm mínútur en þeir voru aldrei aftur yfir í leiknum. Haukar tóku síðan 6-2 áhlaup þar sem þeir skoruðu 6 mörk úr 7 sóknum. Varnarleikur ÍR var nefnilega alveg skelfilegur í fyrri hálfleik, markvarslan engin og dauðafæri Hauka ansi mörg.

Bjarni Fritzson þjálfari ÍR tók í fyrsta skipti leikhlé í leiknum eftir tæpt korter í stöðunni 10-6 fyrir Haukum. Það breytti ekki miklu en Haukar skoruðu næstu þrjú mörk leiksins og þá tók Bjarni aftur leikhlé, rúmlega þremur mínútum síðar. Haukarnir héldu áfram að koma boltanum í markið allan fyrri hálfleikinn en markmenn ÍR vörðu sitt fyrsta skot á sjöundu mínútu en náði ekki að verja aftur fyrr en næstum því átján mínútum síðar. Staðan í hálfleik var 20-14 en sóknarleikur ÍR var ágætur í fyrri hálfleik.

ÍR-ingar komu mjög ákveðnir inn í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu þrjú mörkin í hálfleiknum. Þá skoraði reynsluboltinn Ásgeir Örn Hallgrímsson mikilvægt mark til að stöðva blæðinguna. Liðin skiptust á mörkum út hálfleikinn en þetta var ansi fjörugt fyrsta korter í seinni hálfleik. Með tæpt korter af leiknum var staðan 27-23 fyrir Haukum. Síðan byrjuðu Haukar að kasta boltanum frá sér á fullu. Haukar töpuðu boltanum fimm sinnum en skoruðu bara fjögur mörk. ÍR náðu hinsvegar ekki að nýta sér klaufalegan sóknarleik Hauka í lokin en þeir náðu ekki einu sinni að minnka muninn niður í eitt mark.

Af hverju unnu Haukar? 

Haukar voru rosalega beittir sóknarlega í fyrri hálfleik. Skotnýtingin var frábær og þeir voru að spila boltanum frábærlega á milli sín. ÍR vörnin var ekki góð en það er samt ekki sjálfgefið að lið nýti sér það eins vel og Haukar gerðu í fyrri hálfleik. Síðan spiluðu Haukar nógu vel í seinni hálfleik til að missa ekki foyrstuna alveg.

Hverjir stóðu upp úr?

Adam Haukur Baumruk var í svakalegu stuði í kvöld. 8 mörk úr 9 skotum og oftast leit út eins og markmaðurinn væri aldrei að fara að verja skotið. Adam var líka góður varnarlega með 5 löglegar stöðvanir og einn stolinn bolta.

Heimir Óli Heimisson var að klára mjög vel af línunni í kvöld en félagar hans fyrir utan voru að finna hann mjög vel líka. Ásgeir Örn var einn af þeim sem var að finna línuna vel í kvöld. Hann var með 5 mörk og 3 stoðsendingar í leiknum. Andri Sigmarsson Scheving var mer 53% markvörslu í kvöld, það þarf ekki að segja meira en það um hans frammistöðu í kvöld.

Arnar Freyr Arnarsson spilaði lítið í fyrri hálfleik en átti mjög góðan seinni hálfleik sóknarlega. 5 mörk úr 7 skotum og eitt fiskað víti. Björgvin Hólmgeirsson átti sömuleiðis mjög fínan seinni hálfleik sóknarlega.

Hvað gekk illa?

Allt við varnarleik ÍR í fyrri hálfleik. Markvarslan hjá ÍR var heilt yfir ekki nógu góð í kvöld en samtals 16% markvarsla er ekki að fara að vinna nein stig í þessari deild.

Tölfræði sem vekur athygli: 

83% - Skotnýting Hauka í fyrri hálfleik, það voru eiginlega bara allir Haukarnir í stuði í fyrri hálfleik.

16% - Markvarslan hjá ÍR í leiknum.

15 - Sköpuð færi hjá Haukum í leiknum. Þér létu boltann ganga vel og voru að finna línuna vel.

Hvað tekur við?

Haukar fara á Selfoss á mánudaginn eftir 9 daga í leik þar sem geta sett aðra hendina á deildarmeistarabikarinn. ÍR fá Fram í heimsókn á sunnudaginn eftir 8 daga en þeir eru ennþá að reyna að tryggja sitt sæti í úrslitakeppninni.

 

Gunnar Magnússonvísir/bára
Gunnar:Var aldrei stressaður

„Ég er mjög ánægður með sóknarleikinn. Við skorum 31 mark. Heilt yfir er ég sáttur með varnarleikinn en hann datt aðeins niður inn á milli. Við fáum á okkur 29 mörk og það er kannski aðeins of mikið. Heilt yfir bara flottur leikur og frábær sigur á sterku ÍR liði. Ég er bara hrikalega ánægður með strákana og þessi tvö stig,” sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka eftir leikinn. 

Haukar voru með 6 marka forystu í hálfleik og voru með leikinn nokkurn veginn í höndum sér. ÍR komu með áhlaup í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn niður í 2 mörk. Gunnar hafði þó aldrei áhyggjur af sínum mönnum. 

„Við erum vorum með þetta allt í höndunum í kvöld. Ég var nú aldrei mjög stressaður. Við vorum tveimur mörkum yfir og það var lítið eftir. Mér fannst við hafa góð tök á þessu allan leikinn og hafa frumkvæði nánast frá fyrstu mínútu. Auðvitað vissum við að ÍR kæmu með áhlaup.” 

„Við vorum ekkert að klikka. Horfðu bara á mannskapinn, það eru frábærir leikmenn þarna. Það er erfitt að halda þeim í skefjum í 60 mínútur. Við vissum að ÍR liðið kæmi með áhlaup en við stóðumst þetta áhlaup og komum tilbaka. Við náðum að mínu mati að halda þessu þokkalega í skefjum þrátt fyrir að við náðum ekkert að hrista þá almennilega af okkur. Þetta er bara sterkt lið og það er ekkert auðvelt.“ 

Haukar eru á toppi deildarinnar eins og staðan er núna með þriggja stiga forskot á Selfoss. Gunnar vill verða deildarmeistari en ætlar ekki að horfa of langt fram í tímann. 

„Það vilja allir verða deildarmeistarar. Það vilja allir vinna alla þá bikara sem eru í boði en það er mikið eftir ennþá og við viljum bara einbeita okkur núna á næsta leik. Við fáum einhverja 9 daga til að undirbúa okkur fyrir það. Það er nóg eftir af mótinu og það á margt eftir að gerast. Við erum ekkert að horfa miklu lengra en það.”

 

Bjarni Fritzsonvísir/bára
Bjarni: Við vorum hræddir við þá

„Það var hvernig við mættum til leiks og hugarfarið sem kostaði okkur sigurinn í dag. Við vorum bara engan veginn klárir þegar leikurinn byrjaði og þá er bara ekki hægt að spila vörn. Við spiluðum bara hræðilega í fyrri hálfleik. Auðvitað sérstaklega varnarlega en mér fannst holningin á okkur bara mjög léleg. Andleysið var bara algjört,” sagði Bjarni Fritzson þjálfari ÍR eftir leik aðspuður hvort það hafi verið varnarleikurinn í fyrri hálfleik sem kostaði ÍR sigurinn í kvöld. 

ÍR voru töluvert betri í seinni hálfleik en þeir voru í fyrri. Bjarna fannst hugarfarið hjá liðinu almennt betra í seinni hálfleik. 

„Við fórum bara að spila okkar leik. Við fórum að spila okkar vörn. Við keyrðum hraðaupphlaupin betur og vorum áræðnari þegar við fórum í árásirnar. Þá týndum við saman mörkin hægt og rólega í gegnum hálfleikinn.” 

„Mér fannst við líka vera klaufar á endasprettinum að ná þessu ekki ennþá meira niður.” 

ÍR voru nálægt því að stela stigi af Haukum á lokamínútunum en náðu þó aldrei að jafna. 

„Við vorum með skot hérna í yfirtölunni þar sem við getum minnkað þetta niður í eitt mark. Þá fengum við alveg dauðafæri með tæplega fimm mínútur eftir. Það hefði verið algjör lykill fyrir okkur. Við erum óheppnir í lokinn þegar við reynum að ná boltanum en missum hann frá okkur.” 

„Til að vinna tilbaka 6 mörk þá verður náttúrulega allt að ganga upp en það vantaði svona herslumuninn í lokinn.” 

ÍR eru eins og staðan er núna í sjöunda sæti í deildinni með 14 stig. Þeir eru búnir að spila einum leik meira en bæði Stjarnan og KA sem eru með með 13 stig. Bjarni er samt sem áður ákveðinn á að ÍR sé að fara í úrslitakeppnina. 

„Jú allan daginn. Við teljum okkur ennþá vera á leiðinni í úrslitakeppnina. Við viljum bera okkur saman við þá bestu og Haukarnir eru eitt besta liðið núna. Ég er mjög svekktur með hvernig við mættum til leiks. Við vorum allavega hræddir við þá.” 

„Mér fannst við ekki mæta til leiks eins og lið sem ætlar að vera betri en þau bestu. Mér fannst við mæta til leiks eins og við ætluðum að vera í sjötta sæti. Það er gjörsamlega óþolandi.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira