Umfjöllun og viðtöl: FH - Afturelding 22-22 | Markverðirnir í aðalhlutverkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson skoraði sex mörk fyrir FH.
Ásbjörn Friðriksson skoraði sex mörk fyrir FH. vísir/bára
Nýkrýndir bikarmeistarar FH og Afturelding skildu jöfn, 22-22, í 18. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Markverðir liðanna voru í aðalhlutverkum í leiknum. Arnór Freyr Stefánsson varði 25 skot í marki Aftureldingar (54%) og Kristófer Fannar Guðmundsson 17 skot í marki FH (45%).

Afturelding byrjaði miklu betur, skoraði fyrstu fjögur mörkin og var með góð tök á leiknum. Mosfellingar náðu þó aldrei að slíta sig frá FH-ingum sem voru aðeins marki undir í hálfleik, 10-11. Við þá stöðu máttu þeir vel við una miðað við vandræðin sem þeir áttu í sókninni.

Sóknarleikur Aftureldingar var slakur í upphafi seinni hálfleiks og FH gekk á lagið. Kristófer gaf Arnóri lítið eftir í markvörslunni og FH-ingar náðu fjórum sinnum tveggja marka forskoti undir lokin. En Afturelding skoraði tvö síðustu mörkin og jafnaði í 22-22.

Mosfellingar fengu tækifæri til að vinna leikinn en Kristófer varði lokaskot Tuma Steins Rúnarssonar. Í lokasókn FH á undan varði Arnór úr dauðafæri frá Bjarna Ófeigi Valdimarssyni. FH-ingar voru ósáttir og vildu fá vítakast en fengu ekkert.

Engin breyting varð á stöðu liðanna í deildinni. FH er í 4. sætinu og Afturelding í því fimmta.

Hvers vegna varð jafntefli?

Mosfellingar voru klaufar að vera bara marki yfir í hálfleik. Þeir lentu í ógöngum í seinni hálfleiknum en björguðu stigi. Þeir mega samt vera svekktir enda gefst sjaldan jafnt gott tækifæri til að vinna FH-inga og í kvöld.

FH-sóknin var lengst af stirð en í seinni hálfleik kviknaði á Bjarna Ófeigi og Ásbirni Friðrikssyni. Það í bland við öfluga vörn og góða markvörslu var nálægt því að skila bikarmeisturunum sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór átti magnaðan leik í kvöld og er væntanlega manna svekktastur með að frammistaðan hafi ekki dugað til sigurs. Það tók FH-inga átta mínútur að sigrast á honum og í hálfleik var hann með 57% markvörslu. Arnór var litlu síðri í seinni hálfleik og átti margar lykilvörslur.

Kristófer bauð ekki upp á sömu flugeldasýninguna og kollegi sinn í marki Aftureldingar en varði jafnt og þétt allan leikinn. Án hans hefði FH verið í mun verri stöðu í hálfleik.

Ásbjörn og Bjarni Ófeigur voru markahæstir FH-inga með sex mörk hvor. Arnar Freyr Ársælsson átti einnig góðan leik í vörn og sókn.

Hornabræðurnir Finnur Ingi og Júlíus Þórir Stefánssynir áttu fínan leik fyrir Aftureldingu og Tumi Steinn var drjúgur

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var slakur á löngum köflum. Skotnýting FH var aðeins 44% en liðið hélt töpuðu boltum í lágmarki. Einar Rafn Eiðsson og Jóhann Birgir Ingvarsson áttu erfitt uppdráttar.

Afturelding spilaði góða vörn í leiknum en hraðaupphlaupin vantaði. Miðið hefur líka oft verið betur stillt hjá Elvari Ásgeirssyni.

Hvorugt liðið fékk mark af línu í kvöld en þeir Ágúst Birgisson og Einar Ingi Hrafnsson fengu ekki úr neinu að moða.

Hvað gerist næst?

FH-ingar fara næst til Eyja og mæta þar Íslandsmeisturum ÍBV eftir viku. Sama dag fær Afturelding KA í heimsókn.

Halldór: Miðað við spilamennskuna er eiginlega með ólíkindum að við höfum náð jafntefli

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari nýkrýndra bikarmeistara FH, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í jafnteflinu við Aftureldingu í kvöld.

„Kannski áttum við ekkert meira en stig skilið. Þetta var ekki góður handboltaleikur og mikið um mistök. Við vorum lengst af ólíkir sjálfum okkur. Miðað við spilamennskuna er eiginlega með ólíkindum að við höfum náð jafntefli. Það var ekki fyrr en á síðustu 10-15 mínútunum að við spiluðum alvöru sókn,“ sagði Halldór eftir leik.

„Það truflar mig að við höfum ekki spilað betur en þetta og mér finnst ódýrt að skrifa það á bikarinn um síðustu helgi. Við vorum værukærir.“

Halldór sagði varnarleik FH hafa verið góðan í leiknum og hrósaði Kristófer Fannari Guðmundssyni fyrir hans frammistöðu í marki bikarmeistaranna.

„Hann var frábær í leiknum og vörnin líka. Að sama skapi skutum við illa á Arnór [Frey Stefánsson], sérstaklega í dauðafærunum. Það er ansi langt síðan við skoruðum bara 22 mörk í leik,“ sagði Halldór.

Hann var ekki par ánægður með dómgæsluna í leiknum, ekki síst í lokasókn FH þar sem honum fannst Bjarni Ófeigur Valdimarsson eiga að fá vítakast.

„Við áttum að fá víti og brottvísun undir lokin. Leikmenn Aftureldingar viðurkenndu það. Hann var felldur. Það er með ólíkindum að Mosfellingar hafi ekki fengið neina brottvísun í leiknum. Það voru mörg atvik þar sem hefði verið hægt að reka þá út af. Mér fannst dómarnir vera mjög passívir gagnvart þeim og aggresívir gagnvart okkur. Það var mín upplifun. Mér fannst þetta vera ódýr afgreiðsla á leiknum undir lokin,“ sagði Halldór að endingu.

Einar Andri: Vorum klaufar að vera ekki með betri forystu í hálfleik

„Ég var ánægður með liðið. Við spiluðum virkilega vel og vorum óheppnir í lokin að ná ekki að klára þetta. Að sama skapi var sterkt að koma til baka undir lokin og jafna eftir að hafa lent tveimur mörkum undir,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir jafntefli við FH í Kaplakrika, hans gamla heimavelli.

Afturelding var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þar sem Arnór Freyr Stefánsson varði frábærlega. Samt var munurinn aðeins eitt mark í hálfleik.

„Við klikkuðum á skotum og í yfirtölunni. Í hálfleik ræddum við um að við værum klaufar að vera ekki með betri forystu. En það verður að nýta færin. Við spiluðum samt mjög vel í fyrri hálfleik,“ sagði Einar Andri.

„Vörnin var frábær og þá er Arnór alltaf góður,“ bætti Einar Andri við. Hans menn hafa nú gert tvö jafntefli í röð, gegn Val og FH.

„Við höfum gert jafntefli í tveimur leikjum í röð gegn tveimur af sterkustu liðum deildarinnar. Við eigum í fullu tré við þau,“ sagði þjálfarinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira