Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Valur 26-26 | Háspenna lífshætta í Mosó

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Valsmenn hafa oft fagnað í vetur.
Valsmenn hafa oft fagnað í vetur. vísir/bára
Afturelding og Valur skildu jöfn, 26-26, eftir dramatískar lokamínútur í Mosfellsbænum í kvöld. Afturelding átti lengst af betri leik og leiddi í hálfleik með fjórum mörkum, 16-12. 

Afturelding stjórnaði fyrri hálfleik og leiddi frá fyrstu mínútu, þeir stjórnuðu hraða leiksins og höfðu algjörlega undirtökin á leiknum. Þrátt fyrir það náði Valur oft að koma sér inní leikinn með því að minnka niður í eitt mark en misstu svo heimamenn frá sér aftur. Valsmenn voru ekki sjálfum sér líkir í fyrri hálfleik og geta sjálfum sér kennt um fyrir því hvernig hann spilaðist. En staðan að fyrri hálfleik loknum 16-12, Aftureldingu í vil. 

Valur gerði breytingu á sínum leik í síðari hálfleik, þétti varnarleikinn og í kjölfarið fór Daníel Freyr að verja. Munurinn var aðeins eitt mark eftir fyrstu 10 mínúturnar, 18-17, og Einar Andri, þjálfari Aftureldingar, tók þá leikhlé. Afturelding breytti sóknarleiknum og spilaði þá 7 á 6, þeir náðu með því forystunni aftur og héldu henni næstu 10 mínútur. 

Valur náði forystu í leiknum þegar 10 mínútur voru til leiksloka, 22-23, þá í fyrsta skiptið síðan í stöðunni 0-1. Valur hélt þeirri forystu og stefndi allt í það að Afturelding væri að tapa niður enn einum leiknum þar sem þeir hefðu verið við stjónvölinn. 

Lokamínútan var ótrúleg og magnað hvernig Valsmenn náðu að kasta frá sér sigrinum. Valur leiddi með einu marki þegar Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals, fékk boltann voru 30 sekúndur eftir af leiknum. Hann tekur afleidda ákvörðun og skaut yfir völlinn á autt mark heimamanna en hitti ekki markið. Þar með fékk Afturelding aðra tilraun til þess að jafna leikinn og Árni Bragi Eyjólfsson gerði það þegar 6 sekúndur voru til leiksloka. Lokatölur í Varmá, 26-26, í stórskemmtilegum leik. 

Af hverju varð jafntefli?

Þetta var háspennuleikur og gat sigurinn dottið beggja megin. Jafntefli er í sjálfum sér sanngjörn niðurstaða úr því sem komið var. Afturelding stjórnaði leiknum framan af og var betri aðilinn í 45 mínútur á meðan Valur átti ekki nema góðar 10 mínútur. Valsmenn sýndu þó yfir hvaða gæðum þeir búa með því að snúa leiknum sér í vil á stuttum tíma og voru óheppnir að taka ekki tvö stig en heimskulegar ákvarðanatökur urðu þeim að falli. 

Hverjir stóðu upp úr?

Árni Bragi Eyjólfsson var frábær fyrir Aftureldingu í kvöld, hann skoraði 10 mörk og þar af sigur markið. 

Magnús Óli Magnússon var svo besti maður Vals, hann var gjörsamlega allt í öllu hjá þeim en það erfitt að kyngja því að hafa kostað liðið sigurinn. En Magnús skoraði 13 mörk, það verður ekki af honum tekið. 

Hvað gekk illa? 

Valur mætti ekki til leiks í kvöld, það er erfitt að byrja leik svona ragir og mikið eftir á gegn sterku liði eins og Aftureldingu. Einn besti leikmaður Vals, Anton Rúnarsson, átti afleiddann leik og það hefur mikil áhrif á sóknarleik Vals þegar hann er ekki að spila vel meðan liðinu vantar Róbert Aron og Agnar Smára til að koma inná. 

Hvað er framundan? 

Framundan er enn ein pásan á Olís-deildinni en um næstu helgi fara fram úrslit í Coca-cola bikarnum. Valur mætir 1. deildar liði Fjölni, föstudaginn 8. mars, í undanúrslitum og er það bara formsatriði fyrir þá að klára þann leik og koma sér í úrslitaleikinn á laugardeginum. Afturelding komst ekki í höllina og tekur sér því tveggja vikna frí. 

 

Snorri Steinn: Maggi átti auðvitað ekkert að skjóta

„Þetta er mjög svekkjandi“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, að leik loknum eftir ótrúlega loka mínútu þar sem Valsmenn köstuðu frá sér sigrinum



„Við hittum ekki fjórum sinni í opið markið, það er allavega ein ástæða. Auðvitað átti Maggi ekkert að skjóta þarna þegar það eru 30 sekúndur eftir, við með boltann og einu marki yfir.“ 



Snorri vitnar þar í loka sóknina þar sem Magnús Óli Magnússon skaut yfir völlinn í opið mark Aftureldingar en hitti ekki markið. Afturelding komst þá í aðra sókn og jafnaði leikinn. 

„Fyrri hálfleikurinn var mjög lélegur og ég er ónægður með það hvernig við mættum til leiks. Við vorum ólíkir sjálfum okkur og voru undir í baráttunni. Að sama skapi er ég ánæður með það hvernig stárkarnir rifu sig í gang og komu sér inní leikinn.“ sagði Snorri Steinn og segist vera ánægður með það hversu fljótir strákarnir voru að snúa leiknum sér í vil en að hann sé að sjálfsögðu ósáttur með niðurstöðuna 

Afturelding átti fyrri hálfleikinn skuldlaust, líkt og Snorri segir þá voru Valsmenn alls ekki líkir sjálfum sér stóran hluta leiksins. Snorri segir að honum sé alveg sama hvort jafntefli sé sanngjörn niðurstaða eða ekki. 

„Það getur vel verið, það skiptir mig engu máli. Ég hefði viljað vinna leikinn, við vorum í aðstöðu til þess og þess vegna er ég fúll.“

Valur hefur nú tapað þremur stigum í síðustu tveimur leikjum og er það ansi dýrt fyrir þá í toppbaráttunni

„Já þetta setur okkur aðeins aftur úr, það er bara þannig. Við erum ekki lengur í bílstjóra sætinu en við einbeitum okkur að því þegar deildin byrjar aftur.“ sagði Snorri Steinn að lokum en liðið einbeitir sér nú að úrslitakeppni bikarsins em fer fram um næstu helgi. 

 



Einar Andri: Við vorum heppnir og óheppnir

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var nokkuð sáttur með niðurstöðu leiksins úr því sem komið var.



„Við spiluðum frábæran fyrri hálfleik en gáfum svo aðeins eftir í seinni og lentum í smá basli. En við sýndum karakter með því ná í jafntefli“

„Ég skal alveg viðurkenna það að það hefði verið súrt að tapa af því að við vorum að leggja gríðalega mikið í þetta og fengum gott framlag frá strákunum“ sagði Einar Andri

Afturelding hefur sýnt góða frammistöðu í felstum leikjum tímabilsins en þeir hafa oftar en ekki tapað því niður og eiga þeir oft erfitt með að klára leiki en Einar Andri segir það þó jákvætt að í dag hafi þeir náð í jafntefli og segist hann vera ánægður með framlag sinna manna. 

„Við allavega fengum eitthvað útúr þessu núna. Við sýndum mikinn kjark og hungur hérna í lokin. Maður getur ekkert beðið um annað á meðan menn eru að leggja sig jafn vel fram og þeir eru að gera hjá okkur þá hef ég engar áhyggjur þetta mun falla með okkur“ 

„Ég er bjartsýnn og spenntur. Á meðan menn halda áfram að leggja sig svona fram eins og þeir eru að gera á æfingum og í leikjunum þá gerast góðir hlutir“ sagði Einar Andri að lokum, bjartsýnn á framhaldið

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira