Körfubolti

„Hraður leikur liðsins var kannski það helsta sem að vafðist fyrir Julijan“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julijan Rajic sést hér búinn að setja hindrun fyrir Jeb Ivey.
Julijan Rajic sést hér búinn að setja hindrun fyrir Jeb Ivey. Vísir/Daníel
Króatíski miðherjinn Julijan Rajic hefur spilað sinn síðasta leik í Domino´s deild karla í vetur en Njarðvíkingar létu hann fara.

Julijan Rajic yfirgefur kannski Njarðvík og Domino´s deildina en ekki Ísland. Julijan mun nefnilega ganga til liðs við Hamar í Hveragerðinni í 1. deildinni.

„Julijan verður seint sakaður um að vera ekki góður liðsmaður og prýðis piltur í alla staði. En hraður leikur liðsins var kannski það helsta sem að vafðist fyrir Julijan og því var ákveðið að leyfa honum að finna sér nýtt verkefni.  Julijan er þakkað fyrir sín störf fyrir klúbbinn og við óskum honum velfarnaðar á nýjum stað,“ segir í frétt á heimsíðu Njarðvíkur.

Eftir að leikstjórnandinn frábæri Elvar Már Friðriksson kom til Njarðvíkur þá hefur hraði í leik liðsins aukist talsvert.

Julijan Rajic var með 7,1 stig og 4,9 fráköst á 15 mínútum að meðaltali í leik með Njarðvík í vetur.

Hann var aftur á móti með 16,5 stig og 7,5 fráköst að meðaltali í fyrstu tveimur leikjum Njarðvíkur í vetur en náði ekki að fylgja því eftir.

Njarðvíkingar geta náð fjögurra stiga forskoti á toppi Domino´s deildarinnar með sigri á Haukum á Ásvöllum í kvöld.

Hamar er á fullu í baráttunni um sæti í Domino´s deildinni á næsta tímabili en liðið er eins og er í 4. til 5. sæti, fjórum stigum frá öðru sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×