Skoðun

Spyr sá sem ekki veit

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar
Lög kveða á um að í landinu skuli starfa svonefnd dómstólasýsla. Þetta er samkvæmt lögum sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem sagt er að skuli annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna. Ráðherra skipar fimm menn í stjórn þessarar stofnunar. Þar á meðal er formaðurinn sem kosinn er af dómurum Hæstaréttar úr þeirra röðum.

Eitt helsta verkefni þessarar stjórnar er að gera tillögur um fjárveitingar til dómstóla. Meðal þeirra er Landsréttur sem hóf starfsemi sína í ársbyrjun 2018. Gert er ráð fyrir að tillaga um fjárveitingu til þessa dómstóls sé aðgreind frá öðrum tillögum sýslunnar. Að auki hefur þessi stjórnsýslustofnun margvísleg áhrif á almenna starfsemi dómstólanna, þ.m.t. Landsréttar. Afstaða hennar til slíkra málefna snertir beint starfshagsmuni þeirra sem þar starfa.

Núverandi formaður dómstólasýslunnar heitir Benedikt Bogason og er hann hæstaréttardómari. Hann stendur persónulega í málaskaki fyrir dómstólum. Á síðasta ári áfrýjaði hann til Landsréttar dómi héraðsdóms Reykjaness í máli sem hann hafði höfðað gegn mér til ómerkingar á notkun minni á orðinu „dómsmorð“ um hæstaréttardóm sem hann hafði átt þátt í að kveða upp. Ég hafði með dóminum verið sýknaður af kröfu hans. Málið bíður nú málflutnings í Landsrétti.

Mér er spurn. Hvernig ætlar Landsréttur að tryggja mér hlutlausa málsmeðferð í máli sem þessi valdamikli stjórnsýsluhafi í málefnum dómstólsins hefur höfðað gegn mér? Getur dómstóllinn tryggt mér slíka meðferð, þó að í hlut eigi valdsmaður sem getur haft afgerandi áhrif á fjárveitingar ríkisins til starfsemi dómstólsins?

Spyr sá sem ekki veit.

Höfundur er lögmaður




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×