Kynningar

Herferð gegn limlestingum á kynfærum kvenna

Heimsljós kynnir
Latty er 14 ára og frá Búrkína Fasó. Hún hefur barist gegn limlestingum á kynfærum stúlkna í fjögur ár.
Latty er 14 ára og frá Búrkína Fasó. Hún hefur barist gegn limlestingum á kynfærum stúlkna í fjögur ár. UNFPA

Ef ekkert verður að gert má áætla að um 68 milljónir stúlkna muni þurfa að þola limlestingar á kynfærum sínum fyrir árið 2030. Jafnvel þó að tíðni limlestinga á kynfærum kvenna hafi víðsvegar lækkað á undanförnum árum stefnir, vegna fólksfjölgunar, í að þeim fjölgar þar sem þessi skaðlegi siður viðgengst. Um 200 milljón stúlkna og kvenna lifa í dag með afleiðingum limlestingar á kynfærum. 

Alþjóðlegur dagur gegn limlestingum á kynfærum kvenna er í dag. Af því tilefni hefur Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, hrint af stað herferð þar sem vakin er athygli á skaðsemi þeirra. Markmiðið er að binda alfarið enda á limlestingar á kynfærum kvenna fyrir árið 2030. Það er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem öll ríki heims hafa skuldbundið sig til þess að framfylgja, en undirmarkmið 5.3 kveður á um að allar skaðlegar siðvenjur, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og limlesting kynfæra kvenna og stúlkna, verði aflagðar.

Í febrúar 2018 undirritaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra samstarfssamning til fjögurra ára við UNFPA um stuðning til samstarfsverkefnis UNICEF og UNFPA um afnám limlestinga á kynfærum kvenna og stúlkna. Stuðningurinn hljóðar upp á 200 þúsund Bandaríkjadali á ári, jafnvirði 23 milljóna króna. Utanríkisráðuneytið hefur lagt áherslu á baráttuna gegn limlestingu á kynfærum kvenna og stutt verkefnið frá árinu 2011.

Limlestingar á kynfærum kvenna ná til allra aðgerða sem fela í sér að ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð algerlega, eða að hluta til, eða þeir áverkar sem koma til sökum slíkra aðgerða. Menningarlegar ástæður og siðir liggja til grundvallar og styðja við þá hugmynd að limlestingar á kynfærum kvenna séu öllum stúlkum nauðsynlegar sem hluti af undirbúningi þeirra fyrir hjónaband og fullorðinsár. Limlestingar á kynfærum kvenna er heilbrigðisvandamál, brot á mannréttindum og birtingarmynd á kynbundnu ójafnrétti og ofbeldi. Þá helst þessi siður oft í hendur við barnahjónabönd og veldur því að stúlkur hætta fyrr í skóla.

Vilja uppræta limlestingar á kynfærum kvenna fyrir 2030

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem UNFPA, UN Women og UNICEF birta í dag staðfesta stofnanirnar ásetning sinn um að binda enda á limlestingar á kynfærum kvenna fyrir árið 2030 og koma þannig í veg fyrir að tugir milljóna kvenna upplifi þjáningarnar sem þeim fylgja. 

Samkvæmt yfirlýsingunni eru ríki hvött til þess að innleiða nýjar stefnur og taka upp löggjöf sem tryggir rétt stúlkna og kvenna til þess að lifa án ofbeldis og mismununar. Ríkisstjórnir í ríkjum þar sem limlestingar á kynfærum kvenna eru enn algengar þurfi að samþykkja og fjármagna aðgerðaáætlanir til að binda endi á þessa skaðlegu háttsemi. Þá þurfi trúarleiðtogar að árétta að limlestingar á kynfærum kvenna eigi sér ekki stoð í trúarbrögðum heldur sé það oftast menningarlegur og samfélagslegur þrýstingur sem verður til þess að einstaklingar og fjölskyldur fremji slíkt. 

Latty, 14 ára, segir frá því hvers vegna hún hefur barist gegn limlestingum á kynfærum kvenna í fjögur ár:

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.