Skoðun

Fjárfestum í heilsu

Þorsteinn Víglundsson skrifar
Við verjum nærri 250 milljörðum til heilbrigðiskerfisins okkar árlega að viðbættum beinum útgjöldum heimilanna til heilbrigðistengdrar þjónustu. Þess utan má leiða líkur að því að árleg útgjöld okkar til heilbrigðismála væru í það minnsta 50 milljörðum króna hærri á ári hverju ef meðalaldur þjóðarinnar væri á pari við hin Norðurlöndin. Því til viðbótar bætist síðan krafa okkar um sífellt betri þjónustu og fjölbreyttari úrræði eftir því sem læknavísindunum fleygir fram.Stór hluti kostnaðar heilbrigðiskerfisins í dag er vegna mikillar aukningar á lífsstílstengdum sjúkdómum. Við hreyfum okkur ekki nóg. Streita og álag er of mikið. Við borðum of mikið eða ekki nægilega holla fæðu og svo mætti áfram telja. Við þekkjum afleiðingarnar allt of vel. Aukin tíðni æða- og hjartasjúkdóma, sykursýki, krabbamein, þunglyndi og aðrir geðsjúkdómar. Oft er heilsubresturinn varanlegur og við glímum samhliða þessu við stóraukna tíðni örorku. Við verjum í dag um 70 milljörðum á ári til greiðslu örorkulífeyris og ef tíðni örorku þróast áfram með sama hætti og verið hefur mun árlegur kostnaður okkar hafa aukist um 40-60 milljarða króna árið 2030.Til að bregðast við þessari þróun verðum við að stórauka fjárframlög til heilsutengdrar fræðslu og forvarna. Við þurfum að auka framlög til geðheilbrigðismála og meðhöndla geðræn vandamál til jafns við aðra heilsutengda kvilla. Fyrsta skrefið gæti þar verið að fella þjónustu sálfræðinga og geðheilbrigðisstarfsfólks undir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og auka þannig aðgengi almennings að slíkri þjónustu óháð efnahag. Sú staðreynd að þetta hefur ekki enn verið gert endurspeglar fordóma sem því miður eru enn ríkjandi gagnvart geðsjúkdómum. Það horfir þó vonandi til breytinga því þingmenn Viðreisnar hafa, ásamt 21 öðrum þingmanni, lagt fram frumvarp þessa efnis á Alþingi. Það væri risastórt skref ef frumvarpið nær fram að ganga.Við getum gert miklu betur. Við vitum að aukin áhersla á geðheilbrigði, hreyfingu og heilsusamlegt líferni skilar sér margfalt í bættri heilsu og lífsgæðum og á endanum í lægri útgjöldum til heilbrigðismála og örorku en ella. Fjárfestum í heilsu!
Skoðun

Skoðun

Í mínus

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Túlkun á tölum

Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.