Handbolti

Guðmundur: Merkingarlaust þvaður

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur í viðtölum í leikslok.
Guðmundur í viðtölum í leikslok. vísir/tom
„Mér fannst þetta óþarflega stórt. Við vorum að vinna okkur inn í þetta hægt og rólega í síðari hálfleik og þetta var komið niður í 27-24. Þeir fengu að spila endalaust í sókninni,“ voru fyrstu viðbrögð Guðmundar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara í leikslok.

„Ég hef aldrei séð hendina fara jafn oft upp. Það var bara endalaust. Að vera telja einhverjar sendingar er merkingalaust þvaður. Ég er mjög óhress með þessa línu.“

„Það var tvígrip á þá í þessu tímabili í leiknum og skref en við þurfum að skoða þetta. Við erum að fá á okkur ansi margar tveggja mínútu brottvísanir en ég skildi ekki stóran hluta af þeim.“

Guðmundur segir að þó dómgæslan hafi ekki verið hliðholl íslenska liðinu þá þurfi þeir að líta í eigin barm og skoða hvað hafi farið úrskeiðis.

„Við verðum líka að horfa í eigin barm. Við gáfum frá okkur leikinn að mínu mati með því að stytta sóknir í fyrri hálfleik og taka óþarfa áhættu með línusendingum. Það er munurinn á liðunum í fyrri hálfleik.“

Það kom smá óðagot á köflum í leiknum þar sem íslenska liðið missti boltann of auðveldlega og Spánverjarnir refsuðu grimmilega.

„Við gáfum okkur ekki nægilegan tíma í nokkrar sóknir og þar kom kafli sem við köstum þessu frá okkur. Ekkert ólíkt og við lentum í á móti Króötum. Þetta eru ekki ólíkir kaflar. Þetta er eitthvað sem við verðum að læra af.“

„Við þurfum að skoða það. Við þurfum að skoða varnarleikinn og skoða afhverju við fáum svona margar brottvísanir. Við þurfum að aðlaga okkur þar að breyttum heimi,“ sagði Gummi hundfúll með dómara leiksins.

„Ég ætla ekki að segja of mikið núna en heilt yfir varnarlega segir það sína sögu að hendin kom nánast upp í hverri einustu sókn hjá andstæðingunum að þeir eru í stökustu vandræðum. Við megum ekki hleypa þeim í öll þessi hraðaupphlaup.“



Klippa: Guðmundur: Merkingarlaust þvaður

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×