Umfjöllun og viðtöl: Skallagrímur - KR 78-94 │Íslandsmeistararnir með auðveldan sigur í Fjósinu

Gunnhildur Lind Hansdóttir í Borgarnesi skrifar
vísir/bára

Íslandsmeistararnir í KR sigruðu Skallagrím þegar liðin mættust í Borgarnesi í 12. umferð Domino’s deildar í heldur bragðdaufum leik í Fjósinu í kvöld.

Það var eins og eitt lið væri mætt til leiks eftir jólafrí í Borgarnesi í kvöld því þegar það voru rétt yfir þrjár mínútur liðnar af leik voru Vesturbæingar komnir 17 stigum yfir og heimamenn með fá svör í vörn og sókn.

Þá breyttu Skallagrímsmenn yfir í svæðisvörn sem hægði vel á gestunum. Hægt og rólega söxuðu heimamenn á forskotið en alltaf virtust þó Reykvíkingar hafa yfirhöndina. Þrátt fyrir góðar rispur og mikla baráttu frá þeim gulklæddu, við að reyna að komast nær KR-ingum þá héldu þeir röndóttu góðu 14 stiga forskoti í stöðunni, 37-51, þegar gengið var til klefa.

Svipað var upp á teningnum í seinni hálfleik. Heimamen byrjuðu þriðja fjórðung nánast nákvæmlega eins og þann fyrsta og komust KR-ingar mest í 29 stiga forskot. Ekkert breyttist með liðunum. Gestirnir úr Vesturbænum reyndust heimamönnum hreinlega of stór biti í kvöld og sigldu þeir stigunum tveimur nokkuð örugglega í höfn. Lokatölur 78-94 fyrir Íslandsmeisturunum.

Af hverju vann KR?
KR-ingar eru fimmfaldir Íslandsmeistarar og eru með mikla reynslubolta í sínu liði. Það mætti því einfaldlega segja að það væri ástæðan fyrir KR-sigri í kvöld. Þeir spiluðu ákafa vörn, voru duglegir í öllu sem þeir gerðu og eins og fyrr segir stjórnuðu Fjósinu eins og herforingjar.

Hverjir stóðu uppúr?
Það var enginn einn sem stóð sérstaklega uppúr í KR liðinu. Julian Boyd var með frábæra skotnýtingu og var sömuleiðis stigahæstur gestanna með 23 stig en hann skoraði úr 10 af 13 skotum sínum sem hann tók undir körfunni. Hann ásamt Kristófer Acox spiluðu vel á milli sín en Acox skilaði 21 stigi inn og tók 12 fráköst.

Hjá Skallagrími var það Gabríel Sindri Möller sem kom af bekknum og kláraði leikinn stigahæstur með 19 stig. Þetta var fyrsti leikur Gabríels með Borgnesingum og reynist góð viðbót við nýliðana. Rétt á eftir honum kom Aundre Jackson með 17 stig og 11 fráköst. Björgvin Hafþór var að auki duglegur að finna liðsfélaga sína í kvöld og gaf 10 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?
Maður á mann vörn Skallagríms var ekki góð á stórum köflum í kvöld og gátu gestirnir úr KR nánast skorað hvenær sem er. Svæðið virtist hafa betri áhrif. Að auki ýttu Reykvíkingar heimamönnum úr sínum sóknaraðgerðum og náðu heimamenn aldrei takti þar. Illa hefur gengið hjá Borgnesingum að ná sér í stig nú þegar 12 umferðir eru að klárast. Liðið situr með fjögur stig í ellefta sæti og þarf nauðsynlega á sigri að halda.

Hvað gerist næst?
Nú fer allt á flug á nýjan leik í Domino’s deild karla. Næsta umferð fer fram í komandi viku. Skallagrímsmenn kíkja til Grindvíkinga á fimmtudaginn. Degi síðar, föstudag, fá KR-ingar Keflvíkinga í Vesturbæinn og hefst sá leikur klukkan 20:15.

Ingi Þór: Ánægður með orkuna

Ingi Þór þjálfari KR-inga var ánægður með sigurinn í Fjósinu í kvöld þegar blaðamaður Vísis heyrði í honum að leik loknum.

„Ég er mjög ánægður með orkuna í liðinu í kvöld, hún var góð. Við settum tóninn strax í upphafi á þessum erfiða útivelli,” sagði þjálfarinn úr Vesturbænum.

„Þeir gátu ekkert gert á móti okkur í maður á mann og fóru því í svæði. Ég var hins vegar ekki alveg nóg og ánægður með hvernig við spiluðum á móti svæðinu. Við vorum að reyna alltof erfiða hluti í staðinn fyrir að hafa þetta einfalt og hreyfa boltann betur á milli okkar.”

Leikmannahópur KR-inga hefur tekið örlitlum breytingum frá því fyrir áramót og segir Ingi Þór hálfgert lúxusvandamál ríkja í Vesturbænum.

„Við eigum ennþá eftir að bæta mönnum í liðið. Þetta er lúxusvandamál hjá okkur í Vesturbænum, við eigum mikið af uppöldum KR-ingum, sem er fagnaðarefni, en erum enn að búa til lið. Við þurfum að breyta til aðeins meira og sjá hvort við náum ekki að tikka í öll box,” segir þjálfarinn að endingu.

Finnur Jóns: Því fór sem fór
Þjálfari Skallagríms, Finnur Jónsson, var rólegur á að sjá eftir tap gegn KR-ingum í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur og því fór sem fór,” sagði þjálfarinn stuttorður.

„Þeir byrjuðu af þvílíkum krafti og við einhvern vegin vorum alveg út á þekju í byrjun. Jöfnum okkur svo fljótt og komumst aftur inn í leikinn. Þetta er náttúrlega hörku lið og fimmfaldir Íslandsmeistarar.”

Þrátt fyrir erfiða viðureign þá tekur Finnur jákvæða punkta frá leik kvöldsins.

„Það var kraftur í ungu strákunum hjá mér og ég er ánægður með þá. Gabríel kom sterkur inn og Arnar Smári líka. Bjarni berst alltaf eins og brjálæðingur og Kristján átti góða innkomu, þeir stóðu sig allir mjög vel.”

Einungis 10 leikmenn voru á skýrslu hjá Skallagrímsliðinu í kvöld og saknar liðið t.d. Eyjólfs Ásbergs sem hefur verið lítið áberandi síðan í upphafi tímabils.

„Við bíðum eftir að Eyjólfur verði við heill heilsu, við erum búin að sakna hans lengi og vonum að hann fari að detta í gang. Frábært líka að fá Gabríel til okkar, hann stóð sig mjög vel í kvöld og passar vel inn í liðið.”

Næsti leikur Skallagríms verður gegn Grinvíkingum í Grindavík en Borgnesingar unnu viðureign liðanna er þau mættust í Fjósinu í október síðastliðinn.

„Við vonum það að það birti til hjá okkur. Nú einbeitum við okkur að næsta leik sem er gegn Grindavík og stefnum á að ná okkur í tvö stig þar,” segir Finnur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.