Umfjöllun og viðtöl: Grindavík-Keflavík 89-97 | Keflavík hafði betur gegn nágrönnunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Reggie og félagar spila grannaslag í kvöld.
Reggie og félagar spila grannaslag í kvöld. vísir/bára
Keflavík vann seiglusigur á nágrönnum sínum í Grindavík í 2.umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Keflvíkingar leiddu mest allan leikinn en heimamenn voru þó aldrei langt undan. Keflavík hefur unnið fyrstu tvo leikina í deildinni til þessa.Gestirnir voru yfir langstærsta hluta leiksins en Grindvíkingar eltu þá eins og skugginn. Keflvíkingar nýttu sér það óspart að vera með meiri hæð inn í teignum og gekk Grindvíkingum oftast illa að ráða við þá leikáætun Keflvíkinga.Grindvíkingar hafa hins vegar á að skipa afar góðum skotmönnum og spiluðu mikið upp á þá. Þeir áttu sínar rispur og komust yfir í nokkur skipti í leiknum, meðal annars þegar langt var liðið á fjórða leikhluta.Keflvíkingar voru hins vegar sterkara liðið í lokin. Vörn Grindvíkinga opnaðist þá illa í nokkur skipti og þá voru heimamenn ekki sáttir með nokkra dóma sem Keflvíkingar fengu með sér.Niðurstaðan nokkuð sanngjarn sigur Keflvíkinga sem skilja því heimamenn eftir sigurlausa eftir tvær umferðir. Keflvíkingar hafa hins vegar unnið tvo útileiki, á Sauðárkróki og hér í Grindavík.Af hverju vann Keflavík?Tilfinningin í leiknum var einhvern veginn alltaf þannig að Keflavík ætti að vera með meiri forystu. Ekki af því að yfirburðirnir væru svo miklir heldur vegna þess að lengst af áttu þeir mun auðveldara með að skora en Grindvíkingar.Heimamenn náðu þó köflum í leiknum þar sem vörnin small saman en það er mjög erfitt fyrir þá að verjast þegar stóra manninn þeirra vantar.Eðlilega nýtti Keflavík sér hæðarmuninn og sóttu oft fremur auðveld stig.Þessir stóðu upp úr:Hjá Grindavík var Björgvin Hafþór Ríkharðsson mjög góður og steig heldur betur upp eftir dapran leik í fyrstu umferðinni. Hann var kominn með 25 í framlag eftir þrjá leikhluta og því vakti það nokkra furðu hversu mikið hann hvíldi í þeim fjórða.Ólafur Ólafsson barðist eins og ljón líkt og vanalega en hefði líklegast getað fengið meira frá dómurum leiksins en raun bar vitni. Dagur Kár átti ágæta spretti sem og Ingvi Guðmundsson.Hjá Keflavík var Hörður Axel öflugur og kom með stórar körfur þegar á þurfti að halda. Deane Williams og Dominykas Miklas voru einnig góðir, skiluðu sínu og gott betur.Hvað gekk illa?Varnir liðanna voru ekkert sérstakar í dag en áttu þó sína kafla. Eftir fyrsta leikhluta náðu liðin að stoppa í einhver göt í vörnum sínum en auðvitað er það erfiðara fyrir heimamenn sem hafa ekki sömu hæð í sínu liði og gestirnir.Grindvíkingar tóku mörg óöguð skot gegn KR í fyrstu umferðinni og þó svo að þeim hafi eitthvað fækkað í kvöld þurfa þeir samt að sýna meiri aga á ögurstundu, bæði í sókn og vörn.Hvað gerist næst?Grindavík heldur á Ásvelli í næstu umferð og mætir þar Haukum. Það verður hörkuleikur og vonandi fyrir Suðurnesjamenn verður Bandaríkjamaðurinn þeirra klár í slaginn eftir meiðsli.Keflavík leikur sinn fyrsta heimaleik í næstu umferð og það verður enginn smá leikur, nágrannaslagur við Njarðvík.

Daníel Guðni: Hann verður bara að mæta reimaður á parketið á æfingu á mánudaginn
Daníel Guðni Guðmundsson.vísir/getty
Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindvíkinga var vitaskuld ósáttur eftir tapið gegn nágrönnunum úr Keflavík í Dominos-deildinni í kvöld.„Þetta er virkilega leiðinlegt því þetta var alveg leikur þegar það voru 4-5 mínútur eftir. Svo reyndum við afbrigði í vörninni sem gekk ekki og reyndum furðuleg afbrigði í sókninni líka sem gekk engan veginn og því fór sem fór," sagði Daníel í samtali við Vísi eftir leik.Eftir tapið gegn KR í fyrstu umferðinni var rætt töluvert um óagaðan sóknarleik Grindavíkur. Fannst Daníel það lagast í kvöld?„Mér fannst það lagast fyrri part leiks. Svo dettum við í þennan pakka sem er óþolandi. Þetta var tekið fyrir á videofundi alveg skýrt en svo þegar leikurinn er undir erum við að reyna að redda okkur með svona skotum."„Ég veit það er erfitt að sækja inn í teiginn þegar Ólafur er búinn að fá tvö vítaskot í fyrstu tveimur leikjunum og er í raun eini stóri maðurinn okkar sem sækir á körfuna. Það er kjánalegt. Þá er erfitt að halda jafnvægi og þá festist maður stundum fyrir utan línuna."Daníel tók þó jákvæða punkta úr leiknum í kvöld. Björgvin Hafþór Ríkharðsson steig upp og átti flottan leik og þá skilaði Nökkvi Már Nökkvason fínu framlagi af bekknum."Þeir eiga hrós skilið og mér þykir allir sem koma inn geta gert eitthvað fyrir liðið, hvort sem það er í vörn eða sókn. Björgvin og Nökkvi voru flottir hér í dag. Ég vil sjá þetta oftar frá þeim, að þetta sé ekki bara einhver einn leikur. Þeir eiga að gera þetta stanslaust þegar þeir koma inn.""Okkur vantar bara jafnvægi í okkar leik. Það losnar betur fyrir skotin okkar fyrir utan þegar við fáum Kanann okkar aftur inn í þessa jöfnu," en Jamal Olasawere, erlendi leikmaður Grindavíkur, er meiddur og hefur ekki spilað í fyrstu tveimur umferðunum.„Það er eins gott," sagði Daníel þegar blaðamaður spurði hvort hann ætti von á Olasawere í næsta leik."Auðvitað er það áhyggjuefni þegar leikmaður meðist. Það eru tvær og hálf vika frá þessari tognun, verða þrjár á sunnudaginn og það var  talað um þrjár vikur. Hann verður bara að mæta reimaður á parketið á æfingu á mánudag. Það er ekkert öðruvísi."Hjalti: Munum hægt og rólega verða betri
Hjalti tók við Keflavík í sumar.Vísir/Ernir
„Mér fannst þeir bara þrælflottir, voru hreyfanlegir sóknarlega sem var bara erfitt fyrir okkur. Við erum stærri og þyngri og allt það en þeir voru hreyfanlegir. Ég vil sjá mína menn spila miklu betri vörn, sýna betri samskipti og vera meira á tánum heldur við gerðum í dag,“ sagði Hjalti Vilhjálmsson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn í Grindavík í kvöld.„Tveir sigrar eftir tvo leiki, það er ekki hægt að gera betur. Við eigum samt langt í land bæði sóknarlega og varnarlega. Við munum hægt og rólega verða betri og vonandi toppa á réttum tíma."Keflavík teflir fram þremur erlendum leikmönnum sem allir virðast hafa þónokkuð að sýna.„Þetta eru flottir drengir og passa vel inn í liðið og í raun akkúrat það sem okkur vantaði. Svo geta þeir náttúrlega spilað körfubolta,“ bætti Hjalti við en bandaríski leikmaður þeirra, Khalil Ahmad, lét ekkert sérlega mikið að sér kveða eftir flottan leik í fyrstu umferðinni.„Við vitum alveg að hann getur spilað og er góður leikmaður. En hann er að koma beint úr skóla og er aðeins að læra, læra inn á atvinnumannalífið og allt þetta. Hann mun verða flottur í vetur,“ sagði Hjalti að lokum.

Ólafur: Ef ég hefði hey-að hefði ég örugglega fengið villu
Ólafur skoraði 16 stig og tók 8 fráköst.vísir/bára
Ólafur Ólafsson fyrirliði Grindavíkur var stoltur af sínu liði en var óhress með ýmislegt hjá dómurum leiksins í Suðurnesjaslagnum í kvöld. Keflvíkingar höfðu betur í spennandi leik, 97-89.„Mjög sáttur með frammistöðuna hjá okkur í dag. Við erum bara flottir og nálægt því að vinna þá. Það vantaði einhver atriði í dag og þau féllu ekki með okkur, þess vegna unnu þeir,“ sagði Ólafur í samtali við Vísi eftir leikinn.Grindvíkingar voru ósáttir með dómarana á löngum köflum og sérstaklega undir lokin.„Það skiptir svo sem engu máli hvað maður segir um þetta. Eggert (Aðalsteinsson) dæmir villu á Dag þar sem Dagur snýr bakinu í hann. Hörður Axel snýr höndunum að mér þannig að það er engin leið að Eggert geti séð þetta atvik. Hann flautar bara af því að hann segir „hey“ og það er of mikið."„Stuttu seinna fer ég upp og það er hakkað í höndina á mér og ég hef ekki lagt það í vana minn að „hey-a“. Ef ég hefði „hey-að“ þá hefði ég örugglega fengið villu. Einn dómarinn er auðvitað nýr og allt það, en ég held að hann hafi dæmt tvær villur hér í dag. Ég er ekki að kenna þeim um þetta en hann stendur undir körfunni þegar ég er hakkaður en hefur ekki pung í að dæma,“ sagði ósáttur Ólafur.Grindavík er með tvö töp eftir tvær umferðir en Ólafur lítur björtum augum á hlutina.„Það er margt sem við erum að bæta. Mér fannst við vera betri varnarlega en svo komu kaflar inn á milli, sérstaklega undir lokin, þá voru menn einhvern veginn úti um allt að reyna að ná boltanum. Þá komu auðveldar körfur fyrir þá.“„Við töluðum um eftir síðasta leik að sýna agaðri sóknarleik, við þyrftum líka að vera agaðri í varnarleik. Nú erum við að spila bara á Íslendingum og mér finnst við vera að standa vel í þriggja útlendinga liði.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.