Skoðun

Sorgarhelgi

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Slysin gera ekki boð á undan sér, segjum við eftir þessa liðnu hvítasunnuhelgi og horfum raunaleg á hvert annað. Það er satt. Slysin gerast á þessu skelfilega augnabliki þegar tíminn stendur í stað, allt hljóðnar og ekkert verður framar eins og áður var.

Þegar slysin dynja yfir eiga margir um sárt að binda. Persónur kveðja, önnur liggja slösuð og ástvinir þjást og syrgja. Við hugsum líka til þeirra sem mæta fyrst á vettvang eftir að allt er breytt og fá það hlutverk að bjarga því sem bjargað verður. Þau eru fólkið sem fyrst áttar sig á því sem orðið er. Þetta fólk fær það verkefni að halda ró sinni við erfiðar aðstæður, sýna algera yfirvegun og starfa sem einn maður í þágu vonarinnar. Eitt augnablik birtist fregnin í fjölmiðlum og við finnum til. En þau sem eiga hliðstæða reynslu finna hvernig sárin opnast hið innra og gamall sársauki minnir á sig.

Á svona dögum er ég alltaf svo þakklát að búa í litlu landi þar sem áföllin verða svo miklu meira en frétt þegar samkenndin kemur eins og hlýr andvari, sorginni er deilt og engum stendur á sama. Það er rétt sem sagt er, að léttar raunir eru málgefnar en þungar sorgir þöglar. Samt verðum við að tala um flugslysið við Múlakot og ekki síst við unga fólkið okkar því við finnum öll til. Ég bið þess að himneskir og jarðneskir englar umvefji þau sem látin eru, þau sem eru slösuð og þau öll sem hafa misst. Einnig hugsum við til viðbragðsaðilanna allra sem hafa lagt mikið af mörkum og gert sitt besta. Öll slys af þessu tagi búa í minni þjóðarinnar líkt og ör á þjóðarlíkamanum. Hvítasunnuhelgin 2019, með blíðviðri sínu og sól, verður um ókomna tíð sorgarhelgi í minni þjóðarinnar.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×