Tryggingafélagið Sjóvá sendi í gærkvöldi frá sér afkomuviðvörun eftir að atvinnuhúsnæði hjá viðskiptavinum félagsins við Hvaleyrarbraut brann til grunna í Hafnarfirði á föstudaginn.
Í tilkynningu segir að við uppgjör þriðja ársfjórðungs 2018 hafi Sjóvá kynnt horfur um samsett hlutfall eftir ársfjórðungum, þar sem fram kom að á fjórða ársfjórðungi væri gert ráð fyrir 95% samsettu hlutfalli og 97% samsettu hlutfalli fyrir árið. Jafnframt kom fram að tilkynnt yrði um frávik frá horfum umfram 5 prósentustig í samsettu hlutfalli innan fjórðunga.
Í kjölfar bruna hjá viðskiptavinum Sjóvár í atvinnuhúsnæði við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði föstudaginn 16. nóvember síðastliðinn má búast við að samsett hlutfall fjórða ársfjórðungs verði hærra en gert var ráð fyrir og eru horfur fjórðungsins því uppfærðar í 100%. Vegna endurtryggingasamninga takmarkast eigin áhætta Sjóvár í brunatjónum við 200 milljónir króna, segir jafnframt í tilkynningu.
Í ljósi ofangreinds eru horfur fyrir samsett hlutfall ársins 2018 nú um 98%.
Sjóvá sendir frá sér afkomuviðvörun eftir brunann í Hafnarfirði

Tengdar fréttir

Í annað sinn sem húsnæði Glugga- og hurðasmiðju SB brennur til kaldra kola
Þetta er í annað sinn sem húsnæði Glugga-og hurðasmiðju SB brennur til kaldra kola því árið 1996 varð stórbruni í Glugga-og hurðasmiðjunni sem þá var til húsa að Dalshrauni 17. Fyrirtækið opnaði síðan á nýjum stað að Hvaleyrarbraut ári síðar.

Þurftu að sækja vatn til Garðabæjar vegna slökkvistarfs í Hafnarfirði
Strax í upphaf var ljóst að um mikinn bruna var að ræða og þurfti ansi mikið magn af vatni til að ráða niðurlögum eldsins.

Logar enn í glæðum í Hafnarfirði
Eldur logar enn í iðnaðarhúsnæðinu að Hvaleyrarbraut 39 í Hafnarfirði en tekin var sú ákvörðun að miðnætti í gær að hætta slökkvistarfi en Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var þó með vakt á brunavettvangi alla nóttina.