Að undanförnu höfum við fjallað um stöðu alvarlega andlega veiks fólks í réttarkerfinu. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, greindi frá því að andlega veikum föngum, sem jafnvel eru hættulegir sjálfum sér og öðrum, væri haldið lengur í fangelsi en þörf er á þar sem engin önnur úrræði eru til staðar. Þá sagði Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, það koma of oft fyrir að fólk sem lögregla telur að sé í geðrofi gisti fangageymslu þar sem það fái ekki innlögn á geðdeild.
Þessir einstaklingar glíma oftast einnig við fíknivanda. Þegar þeir eru ekki inni á geðdeild eða í fangelsi enda þeir oft á götunni og leita þá í gistiskýlið við Lindargötu. „Einstaklingur sem er veikur verður strax aftur mjög veikur og fer að nota og annað slíkt ef hann hefur ekki viðunandi úrræði til að fara í,“ segir Þór Gíslason, forstöðumaður gistiskýlisins.

„Ég hef örugglega farið í svona fimmtíu innlagnir og líka langtímameðferðnir en ég hef alltaf farið með það í huga að verða edrú,“ segir Skúli Már og bætir við að það sé erfitt þar sem gatan taki við og hann umgangist þá aðra í mikilli neyslu. Hann segist þó ætla að sleppa eiturlyfjum þennan daginn og fara á VIN, athvarf fyrir fólk með geðraskanir.Vin loki svo klukkan fjögur og þá er það gatan á ný.
Skúli Már hefur margoft gist fangaklefa en þar segist hann stundum fá sjóntruflanir. „Þegar ég fer í þessar fangageymslur þá er ég farinn að sjá svona ferli í höfðinu á mér. Teiknimyndagrafík og eitt og annað. Ég fór að sjá regnboga í öllum veggjum og svarta bletti,“ segir Skúli Már.
Þór segir það gerast að jafnaði tvisvar í mánuði að einstaklingar fari í geðrof í gistiskýlinu. Það sé sorglegt að svo alvarlega veikt fólk búi á götunni og að oft sé betra að það sé í fangelsi. „Ekki viðunandi úrræði fyrir geðsjúka einstaklingar en stundum er bara ástandið þeirra þannig að sá tími sem þeir fá í afplánun er góður fyrir þá til að draga út skaðanum sem er í gangi þann tíma,“ segir Þór Gíslason.