Viðskipti erlent

Markaðir taka ekki vel í tíst Trump um að hann sé „tollamaður“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Trump er virkur á Twitter.
Trump er virkur á Twitter. Getty/Jaap Arriens
Svo virðist sem að viðskiptasamningur Kína og Bandaríkjanna sem hyllti undir um helgina séu í hættu eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi út röð tísta um að hann væri „tollamaður“. Markaðir í Bandaríkjunum hafa hvorki tekið vel í tíst Trump né vangaveltur um að ekkert verði af samningum á milli ríkjanna tveggja.

Um helgina tilkynnti Trump að stjórnvöld í Peking ætluðu sér að „lækka og afnema“ tollasem þau hafa til þessa lagt á innfluttar, bandarískar bifreiðar. Tollarnir hafa numið um 40 prósentum af söluandvirði bílanna. Trump og Xi Jinping, forseti Kína, snæddu saman á dögunum á fundi G20-ríkjanna, þar sem ákveðið var að ríkin myndu hækka ekki tolla hvert á annað í 90 daga, til að liðka fyrir viðræðum.

Þá sagði Trump einnig að yfirvöld í Kína hefðu samþykkt að kaupa mikið magn landbúnaðarvarnings af Bandaríkjunum. Kínversk yfirvöld vildu þó ekki staðfesta eitt né neitt af því sem Trump sagði. Svo virðist sem að Trump hafi ef til vill farið fram úr sér um helgina en í röð tísta í dag sagði Trump að viðræður á milli ríkjanna væru hafnar til þess að sjá hvort hægt væri að gera einhvers konar samning á milli ríkjanna.

„Ef ekki þá er gott að muna að ég er tollamaður. Þegar fólk eða ríki vilja koma hingað og stela okkar mikla ríkidæmi þá vil ég að þau þurfi að borga fyrir það. Það mun alltaf vera besta leiðin til þess að hámarka efnahagslegt vald okkar,“ skrifaði Trump á Twitter. Þá sagði hann líklegt að framlengja þyrfti 90 daga frestin sem ákveðinn var á fundin forsetanna.

Svo virðist því sem að Trump sé að hóta því að háir tollar verði lagðir á kínverskan varning takist ekki að ná samningum á milli ríkjanna tveggja. Í frétt Washington Post segir einnig að embættismenn innan Hvíta hússins hafi reynt að draga úr væntingum yfir mögulegum samningi ríkjanna tveggja.

Markaðir í Bandaríkjunum hafa ekki tekið þessum fregnum vel en eftir að hafa hækkað á mánudag vegna fregna af mögulegum samningi ríkjanna tveggja hafa helstu vísitölur í Bandaríkjunum lækkað. Dow Jones og Nasdaq féllu til dæmis um þrjú prósent í dag vegna tíðinda dagsins.

Trump virðist þó vera hvergi banginn og segist hann vera vongóður um að samningar takist á milli ríkjanna.

„Látum samningaviðræðurnar hefjat. GERUM BANDARÍKIN FRÁBÆR Á NÝ!,“ skrifaði Trump á Twitter.


Tengdar fréttir

Trump segir Kínverja falla frá bílatollum

Stjórnvöld í Peking munu „lækka og afnema“ tolla sem þau hafa til þessa lagt á innfluttar, bandarískar bifreiðar að sögn Bandaríkjaforseta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×