Viðskipti erlent

Trump segir Kínverja falla frá bílatollum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá fundi Donalds Trump og Xi Jinping á dögunum.
Frá fundi Donalds Trump og Xi Jinping á dögunum. Vísir/getty
Stjórnvöld í Peking munu „lækka og afnema“ tolla sem þau hafa til þessa lagt á innfluttar, bandarískar bifreiðar að sögn Bandaríkjaforseta. Tollarnir hafa numið um 40 prósentum af söluandvirði bílanna og ætla má að bandarískir bílaframleiðendur, sem hafa liðið fyrir viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína undanfarna mánuði, muni taka tíðindunum fagnandi.

Kínversk stjórnvöld hafa þó ekki viljað staðfesta tollaniðurfellinguna, sem Donald Trump forseti greindi frá á Twitter-síðu sinni. Þó er ljóst að þíðu gætir í samskiptum Trump og Xi Jinping Kínaforseta, sem snæddu saman kvöldverð á fundi G20-ríkjanna sem fram fór í Argentínu á dögunum. Meðal niðurstaðna fundarins var að ríkin myndu hækka ekki tolla hvert á annað í 90 daga, til að liðka fyrir viðræðum.

Hefði ekki komið til viðræðnanna hefðu tollar á innfluttar, kínverskar vörur snarhækkað í Bandaríkjunum um áramótin, auk þess sem enn fleiri tollahækkanir höfðu verið boðaðar.

Markaðir í Asíu fögnuðu fregnum af viðskiptavopnahléinu. Þannig hækkaði Hang Seng hlutabréfavísitalan í Hong Kong um 2,6 prósent við opnun markað, hækkunin nam 2,9 prósentum í Sjanghæ og um 1 prósenti í Japan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×