Skoðun
Skúli Helgason
formaður skóla- og frístundaráðs

Ný menntastefna í Reykjavík

Skúli Helgason skrifar

Borgarstjórn hefur samþykkt nýja menntastefnu Reykjavíkur til 2030. Hún varð til í samstarfi þúsunda einstaklinga meðal annars barna, foreldra, kennara, skólastjórnenda, fulltrúa fagfélaga og háskólasamfélagsins. Menntastefnan snýst um valdeflingu barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfinu og aukna fagmennsku og samstarf starfsfólks. Yfirskrift stefnunnar: Látum draumana rætast er háfleyg og kannski dálítið væmin fyrir miðaldra karla eins og mig en hún setur markið hátt: að ýta undir frumkvæði, frumleika og skapandi hugsun barna, jafna aðgengi barna að fjölbreyttu námsframboði og skapa kennurum og starfsfólki aukið svigrúm til að gera þær breytingar á starfseminni sem nýta enn betur styrkleika barna, hæfni þeirra og áhuga.

Það var sameiginleg niðurstaða að efla einkum fimm hæfniþætti meðal barna og ungmenna. Þeir eru: félagsfærni með sterka vísan til lýðræðis, mannréttinda og virðingar; sjálfsefling með áherslu á sterka sjálfsmynd, sjálfsaga og sjálfstæða hugsun; læsi sem grundvallast á þekkingu og skilningi; sköpun þar sem frumleiki, frumkvæði og gagnrýnin hugsun er í forgrunni og loks heilbrigði þar sem markmið er að börn tileinki sér heilbrigðan lífsstíl.

Of oft hefur skort úthald til að fylgja eftir samþykktri stefnu og innleiðingin hefur orðið í skötulíki. Því leggjum við mikla áherslu á að stefnunni fylgir fjármagn til að hefja kröftuga innleiðingu strax og tíu almennar aðgerðir sem treysta grundvöll stefnunnar. Þær felast meðal annars í auknu vægi list- og verknáms, náttúruvísinda, útináms og sköpunar; einföldun stoðkerfis fyrir börn með fjölþættan vanda; fjölgun fagfólks með ríkum tækifærum til starfsþróunar og frekari umbótum á aðstöðu til skóla- og frístundastarfs. 200 milljónum verður árlega varið í þróunarstarf í fyrsta áfanga innleiðingar með áherslu á skólaþróun og Nýsköpunarmiðja menntamála mun aðstoða skóla við innleiðinguna í samræmi við áherslur þeirra, mannauð og forgangsröðun.

Ný menntastefna Reykjavíkur er stefna beint úr grasrótinni sem lýsir miklum metnaði skólasamfélagsins í borginni fyrir hönd kynslóðanna sem eru að vaxa úr grasi.

Höfundur er formaður skóla- og frístundaráðsAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.