Sjálfsásökun
Ein algengasta afleiðing kynferðisofbeldis er sjálfsásökun og breytir engu þó að skynsemin, annað fólk, og meira að segja öll rök, vitni um að sökin sé aldrei þess sem fyrir ofbeldinu verður. Margar ástæður liggja þar að baki. Þolendum kynferðisofbeldis er oft sagt að þeir hafi viljað ofbeldið. Þeim er hótað hefndum komist það upp og jafnvel þó að þeim sé ekki hótað er skömmin oft yfirsterkari lönguninni til að segja frá. Sjálfsásökunin á sér einnig upphaf í því að hafa ekki komist undan, að hafa „látið ofbeldið gerast“, eins fáránlegt og það hljómar. Sumir ofbeldismenn gefa fórnarlömbum sínum gjafir, peninga eða annað og mikil skömm hlýst af því að hafa þegið gjafir frá ofbeldismanninum.Kynferðisofbeldi á sér oftast stað á milli einstaklinga sem tengjast. Það fylgir því meiri skömm að faðir, bróðir, afi eða kærasti sé gerandi ofbeldisins en ókunnugur maður í dimmu skuggasundi. Slík áföll trufla þroska barna á mjög djúpstæðan hátt, afskræma sjálfsmyndina og brjóta gegn sjálfsforræði þeirra. Ráðist er á líkamann, hann særður og svívirtur og skömmin er svar við því hjálparleysi sem fylgir slíkri árás á líkamlegt sjálfræði og niðurlægingu í viðurvist annarrar manneskju.
Ofmat á því að skila skömminni
Skömmin er lykilþáttur í andlegum þjáningum og tilfinningavanda þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi og eitt af einkennum áfallastreitu. Hún er greypt í hina kynjuðu menningu þar sem hún er öflugt verkfæri í vopnabúri karla og elur á kynferðislegri skömm hjá konum.Sterkt batamerki þegar unnið er úr afleiðingum kynferðisofbeldis er þegar þolandi finnur að skömmin hefur minnkað. Því miður er sú goðsögn lífseig að þolendur þurfi bara „að skila skömminni“ og þá verði þeir frjálsir og lausir við áfallastreitu, neyslu eða aðrar afleiðingar ofbeldisins. Þetta er ótrúlega mikil einföldun á djúpstæðum tilfinningum. Í fyrsta lagi er með þessu verið að hvetja þolendur til að skila skömminni til ofbeldismannsins sem í langflestum tilvikum er ekkert á því að taka á móti skömm sem hann finnur ekki á nokkurn hátt fyrir! Í öðru lagi er enn og aftur verið að koma ábyrgðinni á verknaðinum yfir á þolandann.