Handbolti

Sóknarleikurinn hefur tekið framförum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Axel Stefánsson landsliðsþjálfari.
Axel Stefánsson landsliðsþjálfari.
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta lék síðasta æfingaleik sinn fyrir undankeppni HM 2019 í gær þegar liðið tapaði með sex mörkum, 29-23 gegn B-liði Noregs. Íslenska liðið lék tvo æfingaleiki í Noregi, vann sex marka sigur á Kína en átti kaflaskiptan dag gegn Noregi í gær.

„Þetta var kaflaskipt hjá okkur, það var mikill stígandi í leiknum gegn Kína. Þær eru með öðruvísi lið sem það tók tíma að læra inn á en við gerðum vel í að klára þann leik. Gegn Noregi fórum við illa með færin okkar framan af og eftir það vorum við alltaf að eltast við þær þótt mér hafi fundist sigurinn full stór.“

Þrátt fyrir að þetta hafi verið B-lið Noregs var þetta gríðarlega sterkur mótherji.

„Þetta voru frábærir leikmenn sem við vorum að mæta, leikmenn úr toppliðum í Danmörku sem eru reglulega í Meistaradeildinni. Markvörðurinn þeirra er í fremstu röð og hún var okkur erfið, tók þrjú hraðaupphlaup og eitt vítaskot í fyrri hálfleik. “

Að mati Axels var hægt að byggja margt á þessum leikjum fyrir undankeppnina sem hefst eftir viku.

„Breiddin í liðinu er að aukast sem er ánægjulegt og sóknarleikurinn gekk lengst af vel. Við gerðum ekki mörg mistök en fórum illa með færin okkar. Við erum að byggja upp nýtt lið í rólegheitunum og erum að reyna að taka næsta skref.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×