Viðskipti erlent

Netflix sagt blekkja þeldökka áhorfendur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá muninn á kynningarmyndunum tveimur fyrir kvikmyndina Like Father.
Hér má sjá muninn á kynningarmyndunum tveimur fyrir kvikmyndina Like Father. NETFLIX
Streymisþjónustan Netflix hefur verið sökuð um að blekkja þeldökka áhorfendur sína með því að varpa upp misvísandi myndum þegar farið er í gegnum úrval sjónvarpsþátta og kvikmynda þjónustunnar.

Þeldökkir notendur Netflix hafa hnotið um það að á skjám þeirra birtist oft kynningarmyndir hinna ýmsu kvikmynda eða sjónvarpsþátta þar sem svartir leikarar eru hafðir í forgrunni og þannig gefið í skyn að þeir fari með stór hlutverk í viðkomandi þætti eða kvikmynd.

Annað komi hins vegar í ljós þegar horft er á efnið sjálft. Dæmi um þetta eru tvær mismunandi kynningarmyndir fyrir kvikmyndina Like Father sem Netflix framleiddi, en aðalleikarar í henni eru Kelsey Grammer og Kristen Bell. Þau eru bæði hvít.

Netflix hefur hins vegar notast við tvær kynningarmyndir fyrir kvikmyndina. Eina þar sem Kristen Bell er í forgrunni og aðra þar sem tveir þeldökkir leikarar, Blaire Brooks og Leonard Ouzts, eru ein innan rammans. Vilja einhverjir notendur Netflix þá meina að þetta sé með ráðum gert til þess að gefa í skyn að þeldökkir leikarar leiki mun stærri hlutverk í myndinni en raun ber vitni.

Annað dæmi er kynningarmynd fyrir bresku jólamyndina sívinsælu, Love Actually, en fyrir hana er Netflix með í umferð kynningarmynd sem skartar hvítu leikkonunni Keiru Knightley og þeldökka leikaranum Chiwetel Eijofor. Út frá kynningarmyndinni gætu margir talið að myndin fjallaði að stórum hluta um þær persónur sem þau leika, en sú er ekki raunin. Þau eru aðeins tvær af mörgum aðalpersónum myndarinnar sem nánast allar eiga það sameiginlegt að vera hvítar.

Kynningarmyndin fyrir Love Actually sem um ræðirNETFLIX
Joy Joses, ritstýra MelanMag.com, sem er lífstílssblað fyrir þeldökkar konur, segir aðferðir Netflix vera „meira en bara blekkjandi.“

„Í ákafa sínum til að þjóna þeldökkum áhorfendahópi hefur Netflix nú farið yfir strikið í þessum málaflokki, [...] Það er meira en blekkjandi að hugsa til þess að hægt sé að ráðskast með mann byggt á þessari aðferðafræði. Þetta er þó sjálfsmark [hjá Netflix] þar sem áhorfendur eru búnir að átta sig á þessu.“

„Af hverju ekki að gefa okkur frekar það sem við raunverulega viljum, fleiri þeldökkar aðalpersónur í stórum og dýrum framleiðsluverkefnum?“

Netflix brást við ásökununum og bar fyrir sig að þjónustan bæði notendur ekki um neinar upplýsingar varðandi kynþátt, kyn eða uppruna, og því væri ómögulegt fyrir þjónustuna að beina ákveðnu kynningarefni að ákveðnum áhorfendahópum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×