Skoðun

Stefna ríkisstjórnarinnar að fækka störfum út á landi

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir skrifar
Það var sorglegt að hlusta á ferðamálastjóra í fréttum RÚV nýlega þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að auka þyrfti sjálfvirkni og fækka störfum til að bregðast við tapi á rekstri ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Staðreyndin er að ferðaþjónusta er og verður mannaflafrek, enda snýst hún að miklu leiti um mannleg samskipti. Auðvitað er alltaf gott að hagræða og þá um allt land, en augljóst er að ferðamálastjóri vill ekki horfast í augu við rót vandans sem er léleg dreifing ferðamanna.

Þetta viðhorf ferðamálastjóra lýsir ágætlega þeim vanda sem við er að glíma í stjórnsýslunni þegar kemur að uppbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins. Í könnun KPMG er augljóst að vandamálið er ekki að það starfi of margir í ferðaþjónustu út á landi, heldur þvert á móti sannar að lítið hefur gengið í dreifingu ferðamanna um landið. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að niðurstöðurnar staðfesti að ferðamenn dvelji skemur á landinu, gisti á höfuðborgarsvæðinu en fari síður út á land og því minna sem fjær dregur því. Það gefur augaleið að auðveldara að halda úti rekstri þegar nýtingin er betri. Sömuleiðis gerir lítill fjöldi ferðamanna það erfiðara að halda úti stærri og þar með hagkvæmari einingum. Því miður hefur ekki verið vilji í verki að dreifa ferðamönnum betur um landið.

Ummæli ferðamálastjóra eru sérstaklega kaldhæðnisleg í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram á Alþingi 17. október sl. um skýrslu ferðamálaráðherra um þolmörk í ferðamennsku á Íslandi. Þar kom fram skýr niðurstaða skýrslunnar að ferðamennska hefur náð þolmörkum á Höfuðborgarsvæðinu og hluta Suðurlandsins og var skýr vilji þingmanna að bregðast við þessu með uppbyggingu samgönguinnviða, opnun fleiri gátta inn í landið og aukinni markaðssetningu þeirra svæða sem geta tekið á móti fleiri ferðamönnum.

Það er grafalvarlegt að embættismaður sem situr í umboði ráðherra ferðamála og hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu ferðaþjónustu um allt Ísland komi á þennan hátt upp um skilningsleysi sitt á ferðaþjónustu.

Stjórnvöld hljóta að bregðast snarlega við niðurstöðum þessara skýrslna og leggja áherslu á uppbyggingu innviða, opna fleiri gáttir og auka markaðssetningu landshlutanna til að stuðla að betri dreifingu erlendra ferðamanna um landið. Ef ekki er varla hægt að skilja ríkisstjórnina öðruvísi en svo að stefna hennar sé í samræmi við orð ferðamálastjóra, að fækka störfum utan höfuðborgarsvæðisins.

Höfuundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×