Skoðun

Alþjóðleg ráðstefna um ADHD fyrir fagfólk, fullorðna, foreldra, ömmur og afa

Drífa Björk Guðmundsdóttir skrifar
Október er alþjóðlegur ADHD vitundarmánuður. ADHD samtökin á Íslandi fagna þrjátíu ára afmæli í ár og er því sérstaklega mikið um að vera þetta árið. Hátíðarhöldin hófust með veglegri afmælishátíð í Iðnó 2. september. Þar var fjölbreytileikanum fagnað og boðið upp á skemmtiatriði og kaffiveitingar. Gestir fengu einnig að spreyta sig í sirkuslistum utandyra.

Endurskinsmerki fyrir alla

Undanfarin 7 ár hefur sú skemmtilega hefð skapast hjá samtökunum að gefa út endurskinsmerki með teikningum eftir Hugleik Dagsson í tengslum við vitundarmánuðinn. Í ár eru endurskinsmerkin tvö í tilefni afmælisins og fást á heimasíðu samtakanna.

Alþjóðleg ráðstefna á fimmtudag og föstudag

Núna á fimmtudaginn 18. og föstudaginn 19. október munu ADHD samtökin standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á Grand Hóteli Reykjavík. Ráðstefnan ber titilinn “Allt sem þú ekki vissir um ADHD og konur, systkini...” Meðal fyrirlesara er Anne Mette Rosendahl Rasmussen, geðhjúkrunarfræðingur frá Danmörku. Hún mun fjalla um áhrif ADHD á fjölskyldulífið og systkini og greina frá námskeiðum fyrir systkini barna með ADHD og einhverfurófsraskanir. Þá verða fyrirlesarar eins og Ari Tuckman, Sari Solden og Erik Pedersen einnig með erindi á ráðstefnunni. Erik Pedersen mun segja frá meðferðarúrræði og eftirfylgni við fullorðna með ADHD í Danmörku. Sari Solden mun sérstaklega fjalla um málefni kvenna með ADHD. Þá verða einnig kynntar nýjar íslenskar rannsóknir tengdar ADHD. Boðið verður upp á túlkun frá ensku yfir á íslensku og öfugt.

Á ráðstefnunni munu ADHD samtökin kynna til sögunnar glænýjan bækling um ADHD og systkini sem undirrituð tók saman.

Enn er hægt að skrá sigá ráðstefnuna á www.adhd.is og hvet ég alla sem hafa áhuga á að fræðast meira um ADHD til að mæta, ekki síst fullorðna með ADHD, foreldra, ömmur og afa barna með ADHD auk meðferðaraðila, kennara og fagfólks um ADHD.

Skilningur skiptir máli, Stuðningur skapar sigurvegara!

Höfundur er sálfræðingur og ritari stjórnar ADHD samtakanna




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×