Enski boltinn

Sky Sports: Af hverju er Gylfi Sigurðsson ennþá að ströggla hjá Everton?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eina mark sitt á tímabilinu á móti Rotherham United í enska deildabikarnum.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eina mark sitt á tímabilinu á móti Rotherham United í enska deildabikarnum. Vísir/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson hafði ekkert að segja við íslensku þjóðina eftir tapið á móti Belgíu á Laugardalsvellinum í gær en enski risafjölmiðillinn Sky Sports hefur ýmislegt að segja um íslenska landsliðsmanninn í dag.

Enska úrvalsdeildin fer aftur af stað um næstu helgi og þar verður Gylfi Þór Sigurðsson í sviðsljósinu með liði Everton.

Everton keypti Gylfa fyrir metfé frá Swansea City fyrir einu ári síðan og það er óhætt að segja að íslenski miðjumaðurinn hafi ekki staðið undir þeim verðmiða á fyrstu tólf mánuðum sínum á Goodison Park.

Matt Cheetham hjá Sky Sports skoðar tölfræði Gylfa í grein sinni á heimsíðu Sky Sports og reynir að komast að því af hverju Gylfi sé að strögla hjá Everton.

Cheetham nefnir það sérstaklega að Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, hafi tekið Gylfa af velli fjórtán mínútum fyrir leikslok þegar liðið þurfti mark. Marco Silva tók þá manninn af velli sem var einmitt keyptur til félagsins til að opna þéttar varnir mótherjanna.Gylfi átti aðeins 10 heppnaðar sendingar í leiknum og skapaði bara eitt færi fyrir félaga sína. Hann náði  ekki einu skoti í leiknum, sólaði engan og kom aldrei við boltann í vítateig Huddersfield. Ekki beint glæsilegar tölur.

Gylfi átti aðeins 10 af 328 heppnuðum sendingum þær 76 mínútur sem hann spilaði á móti Huddersfield en það eru aðeins þrjú prósent sendinganna hjá manni sem þarf að vera mikið í boltanum. Varamaðurinn Ademola Lookman náði fleiri heppnuðum sendingum en Gylfi.

Í grein Sky Sports er nefnt sérstaklega hvað Gylfa gengur illa að skapa færi í opnum leik en hann skapaði aðeins sextán færi í opnum leik allt síðasta tímabil. Mörkin voru fjögur og stoðsendingarnar þrjár.

Liðsfélagar hans Dominic Calvert-Lewin og Leighton Baines bjuggu til fleiri marktækifæri hjá Everton og það gerðu líka menn eins og Mark Noble, Darren Fletcher og Jake Livermore.

Það kemur vel fram í greininni að eitt af stærstu vandamálum Gylfa er að komast hreinlega í boltann. Hann er með 15 heppnaðar sendingar að meðaltali á hverjar 90 mínútur en þar er hann aðeins í 79. sæti af þeim 83 miðjumönnum sem spila alvöru mínútur í ensku úrvalsdeildinni.

Mynd/Tafla Sky Sports

Dæmi um sömu tölur hjá „tíum“ liðanna eru 63,3 heppnaðar sendingar á 90 mín. hjá David Silva í lið Manchester City, 48,5 heppanaðar á 90 mín, hjá Christian Eriksen hjá Tottenham og 39,0 heppnaðar á hverjar 90 mínútur hjá Aaron Ramsey hjá Arsenal. Gylfi er líka á eftir mönnum eins og James Maddison hjá Leicester (37,7 heppnaðar á 90 mín.) og Pascal Gross hjá Brighton & Hove Albion (20,6).

Hingað til á tímabilinu á Gylfi aðeins 4,6 prósent af heppnuðum sendingum Everton-liðsins og aðeins 6,3 prósent af heppnuðum sendingum Everton á síðasta þriðjungnum.

Þetta er mjög sláandi tölur og lýsa í raun aðalavandamáli Gylfa. Það efast enginn um sparkgetu hans eða sendingagetu en vandamálið hjá honum er hreinlega að komast í boltann í leikjum Everton.

Matt Cheetham hjá Sky Sports hrósar Gylfa fyrir falleg mörk og öflugar fyrirgjafir úr föstum leikatriðum sem og fyrir vinnusemi sína þegar liðið er ekki með boltann.

Hann segir líka að framlag frá Gylfa sé lykilatriði ætli Everton liðið að gera eitthvað á leiktíðinni. Á meðan þeir koma honum ekki í boltann þá verður mjög erfutt fyrir Everton liðið að stýra leiknum og opna varnir mótherjanna.

Það má lesa alla grein Matt Cheetham á vef Sky Sports með því að smella hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.