Viðskipti innlent

Hagnaður GAMMA minnkaði um 93 prósent

Hörður Ægisson skrifar
Valdimar Árnason, forstjóri GAMMA.
Valdimar Árnason, forstjóri GAMMA. Vísir/Stefán
Hagnaður GAMMA Capital Management nam tæplega 30 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og dróst saman um 93 prósent frá sama tíma fyrir ári. Þannig minnkuðu umsýsluog árangurstengdar þóknanir um meira en helming og námu samtals 516 milljónum á tímabilinu, að því er fram kemur í árshlutareikningi.

Á sama tíma lækkaði rekstrarkostnaður félagsins um liðlega 120 milljónir og var 483 milljónir króna á fyrri árshelmingi. Það skýrist af því að annar rekstrarkostnaður GAMMA minnkaði um rúmlega 50 prósent á milli ára – úr 316 milljónum í 153 milljónir – á meðan launakostnaður hækkaði hins vegar um 15 prósent og var 330 milljónir.

Fram kemur í ársreikningnum að félagið hafi á tímabilinu fengið lán frá hluthöfum upp á rúmlega 138 milljónir króna. Handbært fé GAMMA var aðeins 13 milljónir um mitt þetta ár. Heildareignir voru um 3.463 milljónir króna en þar munar mest um langtímakröfur á fagfjárfestasjóði sem eru bókfærðar á 1.415 milljónir. Aðrar eignir eru meðal annars kröfur á tengda aðila sem námu 495 milljónum og meira en tvöfölduðust á árinu. Eiginfjárhlutfall GAMMA, en eignir í stýringu félagsins nema um 140 milljörðum, er um 68 prósent.

Stærstu hluthafar eru Gísli Hauksson, sem lét af störfum hjá félaginu í ársbyrjun, með 31 prósents hlut, og Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri Sjóða, með 29,7 prósenta hlut.

Í lok júní var tilkynnt um að Kvika og hluthafar GAMMA hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup bankans á öllu hlutafé GAMMA. Getur kaupverðið numið allt að 3,75 milljörðum miðað við fjárhagsstöðu félagsins í árslok 2017 og stöðu árangurstengdra þóknana sem á eftir að tekjufæra.


Tengdar fréttir

Lykilstjórnendur verða áfram hjá GAMMA

Kvika hyggst kaupa GAMMA fyrir allt að 3,7 milljarða króna. Hluthafar GAMMA munu eignast þriggja til níu prósenta hlut í fjárfestingarbankanum. Óhjákvæmilegur hluti af kaupunum verður að hagræða í rekstri GAMMA.

Kvika banki að kaupa GAMMA

Kvika banki hf. og hluthafar GAMMA Capital Management hf., betur þekkt sem GAMMA, hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×