Enski boltinn

Forseti Nantes harðorður í garð Kolbeins: Hann er ekki góður liðsfélagi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Nantes
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Nantes Vísir/Getty

Forseti franska liðsins Nantes, Waldemar Kita, fer ekki fögrum orðum um íslenska landsliðsmanninn Kolbein Sigþórsson. Kolbeinn var á sölulista hjá félaginu í sumar.

Kolbeinn kom til Nantes árið 2015 og skrifaði undir fimm ára samning við félagið. Hann lenti í erfiðum meiðslum haustið 2016 og hefur lítið sem ekkert spilað fyrir félagið síðan þá.

Kolbeini var sagt að hann mætti fara frá félaginu í sumar en ekkert varð af því og er hann enn leikmaður Nantes.

„Hann var með tilboð frá Grikklandi en neitaði þeim því hann vildi meiri pening,“ sagði Kita í franska blaðinu Ouest-France.

„Hann kom hingað með miklar væntingar en sannaði ekki neitt. Þetta er mér að kenna, ég ber ábyrgð á þessu.“

„Hann er með hæfileika en andlega hliðin er vandamál. Við skulum bara segja að hann er ekki endilega góður liðsfélagi inni í klefanum,“ sagði Kita.

Kolbeinn sagði sjálfur í viðtali við Guðmund Benediktsson fyrr í vikunni að hann hafi verið að leita sér að liðum síðustu tvo mánuði en það sé erfitt að finna lið til þess að veðja á hann þar sem hann hafi ekki spilað neitt af viti í tvö ár.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.