Skoðun
Kristinn Ingi Jónsson

Óþarfa afskipti

Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Það varð okkur til happs að íslenska ríkið gekkst ekki í ábyrgð fyrir bankana þegar þeir hrundu fyrir hartnær tíu árum. Einn helsti lærdómur fjármálakreppunnar er nefnilega sá að ríkið á ekki að ábyrgjast skuldir einkafyrirtækja heldur er heillavænlegast að fólk og fyrirtæki axli ábyrgð á eigin gjörðum.

Í fræðunum er talað um freistnivanda þegar menn fara með peninga annarra en þurfa ekki að taka ábyrgð á því ef þeir tapast. Í fjármálakreppunni birtist vandinn með þeim hætti að stjórnendur margra af stærstu bönkum heims gátu tekið meiri áhættu en ella í trausti þess að ríkið hlypi undir bagga ef illa færi. Þeir nutu hagnaðar þegar vel áraði en skattborgarar báru tapið þegar í harðbakkann sló.

Það fór því um mig ónotakennd þegar ég las nýverið fregnir um að stjórnvöld hefðu komið á fót sérstökum hópi til þess að fylgjast með stöðu fyrirtækja sem talin eru kerfislega mikilvæg, þar með talið flugfélaganna Icelandair og WOW air, og útbúa viðbragðsáætlun vegna hugsanlegra áfalla í rekstri fyrirtækjanna.

Afkoma flugfélaganna hefur vissulega versnað hratt undanfarið, einkum vegna harðari samkeppni og hærra olíuverðs, og er staða þeirra tvísýn um þessar mundir. Það er áhyggjuefni í ljósi þess hve mikilvæg félögin hafa verið fyrir framgang ferðaþjónustunnar.

Engu að síður má spyrja hvaða erindi stjórnvöld telja sig eiga til að greina stöðu einstakra einkafyrirtækja sem eiga auk þess í harðri samkeppni. Flugfélögin þurfa síst á því að halda að misvitrir stjórnmálamenn flæki sig inn í rekstur þeirra. Í stað ríkisinngripa verðum við að láta fyrirtæki bera ábyrgð á eigin ákvörðunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.