Erlent

Asnalegir sebrahestar í dýragarði reyndust málaðir

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Asnalegir sebrahestar.
Asnalegir sebrahestar. Mahmoud A Sarhan
Starfsmenn dýragarðs í Egyptalandi þvertaka fyrir að hafa málað tvo asna til að líkjast sebrahestum þrátt fyrir ljósmyndir sem virðast sýna það án mikils vafa.

Það var ungur maður að nafni Mahmoud Sarhan sem tók myndirnar í dýragarði í Kaíró á dögunum. Þær hafa farið sem eldur í sinu um internetið eftir að hann birti þær á Facebook og vakið mikla kátínu.

Í fyrsta lagi eru þessir meintu sebrahestar alltof litlir og með miklu stærri eyru en raunveruleg sebradýr. Þá eru svörtu og hvítu rendurnar frekar illa málaðar og málningin er greinilega kámuð og byrjuð að skolast til.

Dýralæknar eru á einu máli um að þetta séu asnar sem hafi verið málaðir af óprúttnum dýragarðsvörðum. Egypskir fjölmiðlar hafa eftir framkvæmdastjóra dýragarðsins að myndirnar hljóti að vera falsaðar en ekkert bendir þó til þess.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem álíka mál kemur upp á þessum slóðum. Handan landamæranna á Gaza er dýragarður sem málaði einmitt tvo asna til að líkjast sebrahestum  fyrir nokkrum árum.

Annar dýragarður á Gaza hefur þurft að bregða á það ráð að setja uppstoppuð dýr í búrin. Það var vegna þess að herkví Ísraelsmanna kemur að mestu í veg fyrir flutning villtra dýra til Gaza.

Kínverskir dýragarðar hafa líka komist í fjölmiðla fyrir svipaðar sakir. Dýragarður í Henan reyndi að snyrta til Mastiff hund til að líkjast ljóni og dýragarðarr í Guangxi sýndu gestum uppblásnar mörgæsir og fiðrildi úr plasti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×